Allir þeir sem séð hafa "A Simple Plan" eru nær undantekningalaust sammála um að þessi frábæra mynd sé ein af þeim betri sem gerðar voru á síðasta ári. Þetta er magnaður sálfræðitryllir sem nístir inn að beini í fleiri en einni merkingu, frábærlega skrifaður og einstaklega vel leikinn. Leikstjóri hennar er Sam Raimi en með aðalhlutverkin fara þau Bill Paxton, Billy Bob Thornton, Bridget Fonda og Brent Briscoe. Þeir Hank og Jacob (Paxton og Thornton) eru bræður en þó má segja að það eina sem þeir eigi sameiginlegt sé ættarnafnið. Þeir búa í afskekktum bæ í Minnesota þar sem Hank rekur verslun af miklum myndarskap á meðan bróðir hans er atvinnulaus og hálfgerður slóði sem hefur látið alla drauma sína um betra líf fara viðnámslaust í vaskinn. Dag einn rekast þeir bræður ásamt félaga sínum Lou á flak flugvélar sem hrapað hefur í snævi þöktu fjalllendi. Þegar þeir rannsaka flakið finna þeir lík flugmannsins og tösku sem reynist innihalda 4 milljónir dollara í reiðufé. Þótt þeir geri sér grein fyrir að einhver hljóti að eiga þessa peninga ákveða þeir að taka þá og sammælast um að geyma þá þangað til yfirvöld finna flakið og málið er gengið yfir. En þessi ráðagerð reynist engan veginn svo einföld í framkvæmd og brátt taka mennirnir þrír að gruna hver annan um græsku. Þær grunsemdir fá byr undir báða vængi þegar maður frá FBI kemur í bæinn og tekur að spyrjast fyrir um týnda flugvél. Eitt leiðir af öðru og áður en yfir lýkur taka málin heldur betur óvænta og alvarlega stefnu. Að öllum öðrum ólöstuðum sem fara á kostum í þessari frábæru mynd þá vinnur Billy Bob Thornton hér einn af sínum stærstu leiksigrum, enda var hann tilnefndur til óskarsverðlaunanna árið 1998 fyrir besta leik í aukahlutverki karla, hann er hreint ógleymanlegur. Það sama má segja um Bill Paxton og Bridget Fonda. Handritið er stórfenglegt, enda var það tilnefnt til óskarsverðlauna 1998. Góð kvikmynd sem vert er að mæla með. Alls ekki missa af þessari litlu perlu!!!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei