Þó svo að það verði seint hægt að telja Saw-seríuna eitthvað klassíska þá hefði alveg verið hægt að gera eitthvað rosalega skemmtilegt, krassandi og frumlegt við þennan lokahluta. Í staðinn fáum við bara (kemur á óvart!) ENN MEIRA af því sama, sem þýðir að skotið er framan í okkur flashback-senur, óþarflega gróft ofbeldi (það þarf ekki að sýna bókstaflega ALLT sem gerist við fórnarlömbin til að við föttum að þetta sé ógeðslegt – fyrsta myndin sýndi það nokkuð vel), lélegan leik og bjánalegar fléttur sem eru asnalega þræddar við hinar myndirnar. Það er löngu búið að skemma fyrstu myndina fyrir mér, og þessi sjöunda eyðileggur hana ennþá meira með því að sýna það sem gerðist beint eftir hana með Cary Elwes persónunni í stað þess að leyfa þeirri mynd bara að halda manni í smá óvissu. Þessi sería hefur átt sín móment, en eftir þetta sýni ég henni bara miðfingurinn.
Saw 7, Saw 3D, Saw: The Final Chapter eða hvað sem hún heitir (!) er svo vond kvikmynd að það er skömmustulegt að fjalla um hana. Hún er vond því hún spilar svo illilega með þig og þegar þú áttar þig á því hvað þessi teygða vitleysa er orðin hallærisleg - eftir allar þessar breyttu stefnur í söguþræðinum – þá líður þér verr. Hugmyndaflugið hefur aldrei heldur farið eins mikið sígandi. Gildrurnar sem við sjáum eru kannski nokkrar sniðugar en í öllum seinni helmingnum er vandræðalegt hvað þær verða vægar og óáhrifaríkar. Þetta með spýtuplankana, tennurnar og brennsluofninn (sem ég hélt í fyrstu að væri geimflaug!) er eins og vinahangs á kaffihúsi í samanburði við sumar þrautirnar sem voru t.d. í fyrstu þremur myndunum (sprautunálaatriðið í nr. 2 er líklegast það öflugasta sem ég hef hingað til séð). Ég veit ekki alveg í hvaða endaþarmi leikstjórinn var með hausinn fastan í, en það er sjálfsagt mál að þegar þú ert að loka seríu eins og Saw, þá er málið að skilja smá högg eftir sig. Og það nægir ekki að mjaka endalaust viðbjóði framan í þig. Subbuskapur er svo ódýr leið til að vekja óþægindi. Stundum nægir ekki annað en að gefa hlutina vel í skyn eða stríða okkur með fáeinum römmum, í stað þess að troða þessu framan í andlitið á okkur. Með þessu eru aðstandendur augljóslega að segja við þig: "Finnst þér þetta ekki geðveikt ógeðslegt??"
Meira að segja aðdáendur, ef þeir eru ennþá til, eru líklegir til þess að verða fyrir biluðum vonbrigðum. Í mínum huga er þessi mynd þegar farin að sjóðast saman með Saw 4 og 5 í minningunni (6 var skítsæmileg). Ég er hættur að geta þekkt þær í sundur, sem er áberandi merki um hversu mikið þú ert að sóa tímanum þínum með því að horfa á seríuna. Ef þú ert nýliði eða þekkir einhvern sem hefur ekki séð neina af þessum myndum, segðu honum að hætta að horfa eftir nr. 1 eða 3.
3/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei