Það var áður tími þar sem að ég dýrkaði og dáði Oliver Stone. Ef að einhver kynni að forðast hið hefðbundna og krydda verkum sínum smá persónulegt innsæi, þá var það hann. Þessi maður færði okkur meistaraverk á borð við JFK og Platoon, svo aðeins nokkrar séu nefndar. Einhvern tímann eftir að Any Given Sunday kom út, þá fór álit mitt á þessum manni lækkandi, sem á þeim tíma þurfti mikið til. Ekki skánaði það nú mikið þegar Alexander leit dagsins ljós, enda voru alveg hroðaleg mistök þar á ferð.
Þegar ég frétti af því að Stone ætli að taka að sér mynd um World Trade Center, þá fylltist ég bjartsýni og kvíða samtímis, og síðarnefnda tilfinningin smám saman jókst þegar að ég skynjaði að þetta væri algjör væla. Niðurstaðan reyndist jafnvel vera töluvert lakari en ég þorði að búast við.
Ég get svosem alveg sætt mig við bandaríkjadýrkun, en það er ekki galli þessarar myndar. Vandinn við þessa mynd er einfaldlega sá að myndin er ein bullandi klisja frá A-Ö. Jafnvel með tillit til þess að þetta sé byggt á sannri lífsreynslu, þá efast ég ekki um að niðurstaðan hefði vel getað orðið sterkari.
Öll samtöl, öll persónutengsl og jafnvel uppbyggingin er svo týpísk og óspennandi að ég missti samband við skjáinn áður en að myndin var hálfnuð. Fyrsti hálftíminn var frekar góður reyndar, enda fókusaði hann á meginkjarna þess sem gerðist. Eftir það fylgjumst við með Nicolas Cage og Michael Pena liggjandi fasta undir hrúgu af grjóti í rúman klukkutíma meðan að þeir rifja upp ævi sína ásamt öðru (mig rámar nokkuð í myndina Ladder 49). Jú jú, þeir stóðu sig mjög vel báðir tveir, en handritið leyfði þeim ekki að anda eins og þeir áttu betur skilið.
Stone kallinn veldur ekki aðeins vonbrigðum því hann er eins jarðbundinn og bókin segir til, heldur nær hann ekki einu sinni að framkalla átakanlegt drama úr öllu þessu. Með því að gera myndina í svona áköfum Hollywood-stíl er hann eiginlega að útiloka kraftinn og áhrifin sem að fylgdu þessum degi. United 93 gerði hið öfuga. Hún setti fram 11. september á mjög raunsæjan og alvarlegan máta. Manni leið stundum ekki einu sinni eins og að maður væri að horfa á leikna bíómynd. Nálgun leikstjórans gagnvart þessari mynd þótti mér vera mjög ábótavant.
WTC er kannski vel gerð en svakalega langdregin og innantóm klisjusúpa, og það sem verra er, hún er skelfilega fljótgleymd.
4/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei