Aðalleikarar
Leikstjórn
Amistad var fyrsta kvikmyndin sem meistari Steven Spielberg, gerði fyrir DreamWorks-kvikmyndafyrirtækið, og skartaði hún valinkunnum hópi úrvalsleikara í aðalhlutverkunum eins og óskarsverðlaunaleikaranum Anthony Hopkins, Morgan Freeman, Djimon Hounsou og Matthew McConaughey. Þessi marglofaða og kraftmikla mynd hefur alls staðar fengið frábæra dóma gagnrýnenda og verið margverðlaunuð. Hún hlaut t.a.m. fjórar tilnefningar til óskarsverðlaunanna 1997; fyrir besta leik í aukahlutverki karla (Hopkins), bestu tónlistina, bestu búningahönnunina og bestu kvikmyndatökuna. Myndin, sem byggð er á sannri sögu, hefst árið 1839 um borð í þrælaskipinu Amistad sem er á leið milli hafna á Kúbu, hlaðið þrælum frá Afríku. Leiðtoga þrælanna, Cinque, tekst að losa af sér hlekkina og þeir gera uppreisn gegn spænskri áhöf skipsins. Þrælarnir þyrma lífi þeirra tveggja manna sem eru skjalfestir "eigendur" þeirra gegn því að þeir vísi þeim leiðina aftur heim til Afríku. En mennirnir svíkja loforð sitt og beina skipinu til Bandaríkjanna. Þar eru uppreisnarmennirnir yfirbugaðir og varpað í fangelsi. Í hönd fara réttarhöld sem áttu eftir að láta hrikta í stoðum bandarísks réttarkerfis. Árið 1839, rétt áður en uppreisnin um borð í Amistad átti sér stað, höfðu gengið í gildi lög í Bandaríkjunum sem afnámu þrælahald að því leyti að bannað var að hneppa frjálsa menn í þrældóm. Lögin náðu hins vegar ekki til þeirra sem þegar voru þrælar. Spurningin í máli mannanna á Amistad var því hvort þeir hefðu verið þrælar áður en uppreisnin var gerð og því gerst sekir um morð, eða hvort þeir hefðu einungis verið að berjast fyrir frelsi sínu og þar með verið í rétti til að gera uppreisn gegn mönnunum sem héldu þeim föngnum. Meistaralega gerð kvikmynd frá meistaranum Steven Spielberg, sem skapar enn eitt meistaraverkið. Hér er allt til að prýða góða kvikmynd; gott handrit, góð myndataka, fantagóð tónlist og stórfengleg leikstjórn. Og síðast en ekki síst var hún vel leikin af þeim snillingum sem hér fara á kostum. Sérstaklega Anthony Hopkins, Morgan Freeman og Djimon Hounsou. Ég mæli eindregið með AMISTAD og gef henni þrjár og hálfa stjörnu. Alls ekki missa af henni!!
Síðan Spielberg sendi frá sér meistaraverkin Schindler's List og Jurassic Park árið 1993 hefur honum ekki tekist að fylgja eftir orðspori sínu. The Lost World var bara léleg og Saving Private Ryan var góð, en gölluð. Amistad er þarna á milli. Þetta er mikil synd vegna þess að söguþráðurinn og leikararnir eru fyrsta flokks, vandinn liggur hjá Spielberg en andi tilgerðarleika og egóisma svífur yfir allri framleiðslunni. Mörg atriði eru mjög kraftmikil og vel útfærð, en á milli þeirra eru atriði sem eru bara vandræðaleg og léleg. Ég gat næstum því heyrt í Spielberg útskýra fyrir Anthony Hopkins hvernig hann ætti að leika: "Og núna kemstu að því að þú skilur þetta allt saman... sniff..." og tárin sem renna niður kinnar Spielbergs vegna þess hversu yndislega sorgleg og tragísk myndin er sjást á skjánum á meðan óþolandi barnaleg og einfaldningsleg tónlist John Williams spilar undir til að ýta undir dramatíkina. Ég held að Williams hafi aldrei staðið sig jafnilla, en hann - eins og Spielberg - hefur ekki staðið undir orðspori sínu í langan tíma. Eins og ég sagði áðan standa allir leikarar sig mjög vel og handritið sjálft er mjög gott þetta er ekki rétta myndin fyrir Spielberg og co. og ætti það lið að gera fleiri ævintýramyndir heldur en alvarlegar "afleiðinga"myndir.
Um myndina
Leikstjórn
Handrit
Steven Zaillian, William Owens, Roger Trapp
Aldur USA:
R
Frumsýnd á Íslandi:
6. mars 1998
VHS:
25. ágúst 1998