Mikið svakalega bregður mér að sjá einkunnina sem þessi mynd fær hér á síðunni!! Hvað er í gangi??? Þessi mynd er með bestu hasar- og spennumyndum sem ég hef séð. Hugmyndin að henni er sprottin úr raunveruleikanum og er þar krufin til mergjar hin hættulega starfsemi sérfulltrúa og aðalmannsins, the recruit, með athyglisverðum sálfræðilegum pælingum. Og auðvitað toppleikur hjá Farrell og félögum. Al Pacino fer að vera svolítið einhæfur, er svo oft í þessu sama hlutverki og hér, en samt kemur hann sínu frábærlega frá sér eins og áður. The Recruit er hörkuspennandi og hélt athygli minni algerlega út í gegn og hef ég sjaldan skemmt mér eins vel -enda er hasar í bland við mannlegan breytileika mín toppformúla að góðri mynd. Colin Farrell er búinn að taka að sér mjög áhugaverð hlutverk og ég fíla langflestar myndirnar hans í botn. Mér fannst þó S.W.A.T vera leiðinlegt hliðarspor frá toppmyndum eins og Phone Booth og The Recruit. Söguþráðurinn hér í The Recruit er það flókinn og hvert atriði það mikilvægt að ég kýs að segja ekkert um hann. Endilega takið hana, þótt hún sé síðri í sjónvarpi en í bíó, á ég allavega eftir að sjá hana oft í framtíðinni. Ég mæli hiklaust með henni fyrir sanna aðdáendur góðra hasar- og spennumynda með áhugaverðri sögufléttu. Þótt heildarsöguþráðurinn sé ef til vill svolítið fyrirsjáanlegur er bara allt annað í toppstandi. Í The Recruit eru sterkar persónur, góður leikur og topp tónlist, myndataka og klipping.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei