Aðalleikarar
Leikstjórn
Handrit
Hugljúf og heillandi mynd sem vann sífellt á í huga mínum meðan hún stóð. Þegar í ljós kemur að Katherine Gulden er haldin illkynja og ólæknandi krabbameini sem draga mun hana til dauða innan örfárra mánaða ákveður eiginmaður hennar, háskólaprófessorinn og heimsmaðurinn George Gulden, að biðja dóttur þeirra hjóna, Ellen, að koma heim til að annast móður sína í veikindunum. Ellen, sem starfar sem blaðakona í New York er ekkert sérlega áfjáð í verkefnið, enda hefur samband hennar við móður sína aldrei verið upp á marga fiska. Hún lætur þó til leiðast, ekki síst til að flýja frá sínum eigin vandamálum sem herja á hana í New York. En koma Ellen á æskuheimilið á eftir að hafa í för með sér uppgötvanir á staðreyndum úr fortíð fjölskyldunnar sem Ellen hafði ekki órað fyrir að leyndust þar. Og smám saman áttar hún sig á hinni raunverulegu arfleifð móður sinnar. Eftir að hafa horft á þessa mynd er eitt sem stendur mest uppúr í huga mínum; ólýsanlegur stórleikur óskarsverðlaunaleikkonunnar óviðjafnanlegu Meryl Streep í hlutverki Kate Gulden, henni tekst enn einu sinni að heilla áhorfendur og bæta enn einni áhugaverðu persónunni í safn sitt; hún hefur tólf sinnum verið tilnefnd til óskarsverðlaunanna og þrívegis hreppt hann. Mér finnst það ósanngjarnt að hún skyldi ekki hafa hreppt hann fyrir þessa mynd en það er einungis hún sem gerir það að verkum að myndin heldum fullum dampi til loka. Í eyrum kvikmyndaunnenda sem fylgst hafa með henni í gegnum árin hlýtur það að hljóma nokkuð stórt upp í sig tekið að segja að leikur hennar í "One True Thing" sé það besta sem hún hafi sýnt. Engu að síður fullyrði ég að þetta er ein af hennar bestu myndum. Hún fer hér algjörlega á kostum í hlutverki sínu enda var hún fyrir það enn og aftur útnefnd til óskarsverðlauna og eru flestir sem ég hef talað við á því að hún hefði sannarlega átt að vinna þau, mun frekar en Gwyneth Paltrow sem vann þau fyrir Shakespeare in Love. En One True Thing er miklu meira en stórkostlegur leikur Meryl Streep. Þetta er sannkölluð gæðamynd sem hefur hlotið frábæra dóma gagnrýnenda og auk hennar þykja óskarsverðlaunaleikarinn William Hurt og leikkonan Renée Zellweger einnig sýna stórleik í sínum hlutverkum undir traustri leikstjórn meistarans Carls Franklin og skapa í senn ógleymanlega og umhugsunarverða stórmynd sem vekur áhorfandann til hugsunar um hvernig það fer með fjölskyldu þegar stærsti hlekkurinn í henni veikist skyndilega og hvernig horfast skal í augu við lát þessarar mikilvægu manneskju í lífi manns. Ég hef upplifað þessa tilhugsun og hef því fullan skilning með persónum myndarinnar. Ég gef myndinni þrjár og hálfa stjörnu, einkum og sér í lagi fyrir meistaralegan leiksigur hinnar einstöku Meryl Streep sem sannar í eitt skipti fyrir öll með túlkun sinni á hinni dauðvona húsmóður að hún er hiklaust besta núlifandi leikkona heims. Svo einfalt er nú það!!!
Um myndina
Leikstjórn
Handrit
Framleiðandi
Universal
Aldur USA:
R
Frumsýnd á Íslandi:
9. apríl 1999
VHS:
12. október 1999