Mun Zack Snyder leikstýra Justice League?

Man of Steel, nýja Supeman myndin, er væntanleg í bíó í sumar. Margir telja hana verða prófstein á það hvort að gerð verði Justice League mynd, en Justice League er ofurhetjuteymi skipað ofurhetjum úr DC Comics teiknimyndasögunum. Sambærilegur hópur er Avengers frá Marvel, en í fyrra var frumsýnd mynd um Avengers hópinn sem sló hressilega í gegn.

Ef Man of Steel gengur vel er sem sagt talið að hún muni ryðja brautina og að ekkert standi í vegi fyrir Justice League mynd í kjölfarið, en eins og kunnugt er þá voru Iron Man myndirnar einskonar forleikur að Avengers. Menn telja einnig að ef Man of Steel gangi vel þá muni Zack Snyder, leikstjóri Man of Steel, vera sjálfkjörinn til að leikstýra Justice League.

Snyder veit væntanlega sitthvað um málið sjálfur, en hefur þar til nú ekki sagt mikið opinberlega um þessar vangaveltur.

Empire kvikmyndaritið helgar nýjasta hefti sitt Man of Steel og þar er Snyder spurður að þessu, en Empire gefur sér að Zack muni fá verkefnið ef Man of Steel gengur vel.

„Ég á erfitt með að sjá þetta fyrir mér heildstætt ennþá. En ég verð að segja að það væri allt sem ég myndi óska mér. Ég vona að ég sé ekki orðinn klikkaður, en þetta er góð tilfinning,“ segir Snyder í Empire en auðveldega mætti túlka orð hans þannig að hann sé að staðfesta þessar vangaveltur.

Sagt er að Cristopher Nolan, sem framleiðir Man of Steel, og leikstýrði nýjasta Batman þríleiknum, hafi engan áhuga á að leikstýra Justice League, og þá hlýtur Snyder að vera augljós kostur, ekki síst ef Warner Bros vilja spýta í lófana og hafa styttra á milli Man of Steel og Justice League en var á milli fyrstu Iron Man myndarinnar og Avengers, sem voru fjögur ár.

Ef Justice League yrði frumsýnd árið 2015 yrðu tvö ár á milli hennar og Man of Steel.