Metaregn Stjörnustríðs

star warsFrumsýningardagur kvikmyndarinnar Star Wars: The Force Awakens, nú á fimmtudaginn, var allra stærsti frumsýningardagur frá upphafi kvikmyndasýninga á Íslandi, en 10.310 manns sáu myndina á fyrsta degi sýninga og miðasala nam 14,2 milljónum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sambíóunum.  Þar með sló myndin út fyrra met The Hobbit: The Battle of the Five Armies sem frumsýnd var um jólin í fyrra, um 50%.

Samkvæmt upplýsingum frá Disney/Lucasfilm framleiðanda myndarinnar, þá hafa met verið að falla um allan heim, en hvergi hafa þeir séð álíka tölur eins og á Íslandi.

Myndin var frumsýnd í 25 sölum um land allt og hópaðist fólk á öllum aldri á myndina og mynduðust biðraðir fyrir framan salina, allt að tveimur klukkutímum áður en sýningar hófust.

„Það er ljóst að STAR WARS: THE FORCE AWAKENS hittir í mark hjá bæði áhorfendum og gagnrýnendum því myndin er að fá stórkostlega dóma erlendis og hér heima, en bæði visir.is og Morgunblaðið hafa nú þegar gefið henni fullt hús, eða 5 stjörnur,“ segja Sambíóin í tilkynningunni.