Mel Brooks með hryllingsmynd í framleiðslu

Gríngoðsögnin Mel Brooks tilkynnti nýlega að hann myndi aftur sameinast handritshöfundunum Steve Haberman og Rudy De Luca, sem unnu með honum að Dracula: Dead and Loving It og Life Stinks, til að framleiða hryllingsmynd úr slasher-geiranum.

Myndin mun heita Pizzaman og fylgir ungnum manni sem er ranglega færður á geðveikrarhæli og missir vitið á meðan. Þegar honum er sleppt ákveður hann að hefna sín á fólkinu sem kom honum þarna inn og gerist þvi pizza-sendill.

„Þegar að þau sögðu mér fyrst frá söguþræði myndarinnar sagði ég, ‘Ertu ekki að grínast?’ Og þau sögðu, ‘Nei, þetta er frábær hugmynd að hryllingssögu.’ Síðan skrifuðu þau frekar spennandi og áhugavert handrit sem ég vann síðan aðeins að. Þetta er fullkomlega frumlegt, byggt aðeins á kolbilaða ímyndunarafli Rudy og Steve,“ sagði Brooks um fyrstu kynni sín af myndinni. Haberman mun bæði skrifa og leikstýra myndinni en samkvæmt Brooks mun aðalleikari Robin Hood: Men In Tights, Cary Elwes, fara með hlutverki leynilögreglumanns í myndinni; á meðan Stacy Keach mun leika illmenni myndarinnar.