McGregor er Jesús og Satan

Fyrsta myndin af skoska leikaranum Ewan McGregor í hlutverki Jesús er birt í nýjasta hefti tímaritsins Entertainment Weekly, og sjá má hér að neðan, en McGregor leikur Jesús í myndinni Yeshua, sem þýðir einmitt Jesús á hebresku.

Myndin, sem leikstýrt er af Rodrigo García, verður frumsýnd á Sundance kvikmyndahátíðinni í janúar nk. og fjallar um 40 daga dvöl Jesús í eyðimörkinni, þar sem hann fastaði og baðst fyrir, og þar sem djöfulinn kom til hans og freistaði hans.

ewan

Í myndinni hittir Jesús fjölskyldu sem býr í eyðimörkinni, sem á í erfiðleikum, en sonurinn í fjölskyldunni, sem Tye Sheridan úr Mud leikur, vill fara úr hráslagalegri eyðimörkinni og til Jerúsalem í leit að betra lífi. Faðir hans, Ciarán Hinds, er andvígur þessu og krefst þess að drengurinn fari hvergi.

Í myndinni leikur McGregor líka djöfulinn sjálfan, þegar hann kemur og freistar Jesús, en í þeim atriðum er það staðgengill McGregor Nash Edgerton sem leikur á móti honum.

En sagan í myndinni er ekki sönn. „Þetta er ekki Biblíusaga. Þetta er saga sem Rodrigo Garcia skáldaði,“ segir McGregor.

McGregor á ekki von á að myndin eigi eftir að verða umdeild, líkt og t.d. mynd Martin Scorsese, The Last Temptation of Christ, varð. „Það er ekkert í þessari mynd sem gæti farið fyrir brjóstið á fólki, nema ef vera skyldi að verið sé að skálda sögu með Jesús sem er ekki til í Biblíunni.“