Matur étinn lifandi í Pulsupartýi – fyrsta stikla!

Fyrsta stiklan fyrir teiknimyndina Sausage Party, eða Pulsupartý í lauslegri snörun, er komin út, en myndin er sögð vera fyrsta bannaða ( R-rated ) tölvuteiknaða bíómyndin. Eins og sést í stiklunni, sem líka er bönnuð börnum, þá er það líklega miskunnarlaus slátrun matarins og ljótt orðbragð, sem er ástæða bannsins.

Með helstu hlutverk fara þekktir gamanleikarar, eða þau Paul Rudd, Kristen Wiig, James Franco, Jonah Hill, Edward Norton, Seth Rogan og Michael Cera.

pulsu

Hugmyndasmiður myndarinnar er Seth Rogen og samstarfsmaður hans er Evan Goldberg. Myndin fjallar eins og fyrr sagði um mat, sem í góðri trú er yfir sig spenntur yfir því að vera valinn í matvöruverslunum, en er svo soðinn, brytjaður, flysjaður og skorinn í bita þegar heim er komið.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan:

Opinber söguþráður myndarinnar hljómar einhvern veginn svona:

Myndin fjallar um ferðalag einnar pulsu og uppgötvun hennar á sárum sannleika tilveru sinnar. Eftir að hafa dottið úr innkaupakerru þá hefst ferðalagið í gegnum matvöruverslunina, en markmiðið er að komast aftur í rekkana í versluninni áður en útsalan 4. júlí hefst.

Myndin kemur í bíó á Íslandi 10. ágúst nk.