Matthew Goode gæti verið næsti Superman

Zack Snyder, leikstjórinn á bak við næstu mynd um ofurhetjuna Superman, leitar nú að leikara til að takast á við hlutverkið heimsfræga. Snyder, sem er hvað þekktastur fyrir myndina 300 sem einnig er byggð á myndasögu, leitar í samstarfi við Batman-gúrúinn Christopher Nolan að leikara á aldrinum 28 – 32 ára, en Nolan var ráðinn til að hjálpa við og fylgjast með framleiðslu myndarinnar.

Nú hefur vefsíðan MovieNewz lýst því yfir að Matthew Goode, sem lék ofurhetjuna Ozymandias í Watchmen, sem Snyder leikstýrði einnig, sé meðal þeirra líklegustu til að hreppa hlutverkið. Mjög ólíklegt er talið að Brandon Routh, sem lék í Superman Returns árið 2006, snúi aftur en mynd Snyders mun ekki vera beint framhald af henni. Samkvæmt heimildum MovieNewz leita þeir Snyder og Nolan að leikara sem gæti leikið Clark Kent, en myndi síðan njóta hjálpar tæknibrellumanna til að líta út eins og Superman.

– Bjarki Dagur