Matt Damon ósáttur með Universal Pictures

Eins og kom nýverið í ljós undirbýr kvikmyndaverið Universal Pictures nú fjórðu myndina í seríunni um Jason Bourne. Þannig er mál með vexti að Matt Damon, sem hefur hingað til farið með hlutverk töffarans Bourne, afþakkaði boðið um fjórðu myndina, en Universal lét það ekki stöðva sig. Lýstu þeir því yfir að fjórða myndin muni gerast í sama heimi og fyrri myndirnar þrjár, en ekki fjalla beint um Jason Bourne heldur nýja persónu.

Í viðtali sem tekið var á dögunum kemur í ljós að Damon er ekki par sáttur með framvindu mála. „Ég las á vefnum að þeir væru að gera aðra Jason Bourne mynd sem ég verð ekki í. Enginn sagði mér neitt, það var bókstaflega aldrei hringt í mig. Fólk heldur að ég viti hvað gengur á bakvið tjöldin en þetta sýnir manni hvar maður er í goggunarröðinni.“

Aðspurður hvort hann hefði áhuga á að gera aðra mynd um Jason Bourne svaraði Damon, „Ég myndi gera það aftur, án efa, með Paul [Greengrass, leikstjóra The Bourne Ultimatum]. Universal eiga reyndar ekki réttinn á Bourne, svo ég myndi fara með verkefnið til Warner Bros. og leyfa fólkinu hjá Universal að lesa um það á vefnum.“

– Bjarki Dagur