Maður stunginn á Resident Evil-kynningu á Comic-Con

Á Comic-Con eru um 120.000 gestir sem keppast um það takmarkaða pláss sem er á hverjum atburði á hátíðinni. Stærsti salurinn tekur um 6.500 manns í sæti, þannig að ekki komast allir að sem vilja. En þröngt mega sáttir sitja.

Hins vegar voru tveir menn ekki beint sáttir með hvorn annan á kynningu á Resident Evil: Afterlife í dag (þar sem undirritaður sat stutt frá), en rifrildi um sæti í salnum undir lok hennar endaði með því að annar maðurinn stakk hinn í andlitið með penna, með þeim afleiðingum að árásaraðilinn var handtekinn og leiddur út af lögreglunni á meðan hinn var færður á sjúkrahús.

Kaldhæðni örlaganna hagaði því svo til að maðurinn sem var handtekinn var klæddur í bol sem á stóð „Undesirable No. 1“. Stóð hann sannarlega undir þeirri yfirlýsingu meðal hátíðargesta í dag, en þetta er eina líkamsárásin sem tilkynnt hefur verið um til þessa, þrátt fyrir gífurlegan mannfjöldann og fulla tunglið sem glampar skært á á þessu laugardagskvöldi í San Diego.

-Erlingur Grétar Einarsson