Man of Steel 2 enn í vinnslu

Samkvæmt heimildum kvikmyndavefsíðunnar The Wrap þá er, þrátt fyrir að það fari ekki hátt, enn í gangi þróun á framhaldi Supermanmyndarinnar Man of Steel ( Batman v Superman átti upphaflega að vera slík framhaldsmynd, en þróaðist á annan hátt ).

man-of-steel

Samkvæmt vefsíðunni þá er framhaldsmynd um Superman enn framarlega á forgangslista Warner Bros kvikmyndarisans, en heimildir innan Warner Bros segja The Wrap að unnið sé að því að ná persónunni „réttri“, sem er, mætti halda, heldur seint í rassinn gripinn þar sem nú þegar eru komnar tvær myndir með Henry Cavill í hlutverki ofurmennisins.

Ekkert hefur verið gefið út um innihald myndarinnar, né heldur hvenær megi eiga von á henni.

Eins og flestir ættu að vita þá er Superman ættaður úr heimi DC teiknimyndasagna, en næsta bíómynd úr þeim ranni ( frumsýnd 2 .júní 2017 ) er fyrsta myndin um Wonder Woman, þar sem Wonder Woman er aðalpersónan, með Gal Gadot í titilhlutverkinu.

Nú þegar höfum við séð stiklu úr þeirri mynd, en eins og margir muna eftir hefst myndin úti á ströndu þar sem Wonder Woman finnur hermann sem skolað hefur á land.

Í kjölfarið á Wonder Woman kemur svo hóp-ofurhetjumyndin Justice League, í nóvember á næsta ári.

Sjáðu stikluna úr Wonder Woman hér fyrir neðan: