Machete drepur aftur í apríl


Karakterinn Machete kannast flestir við nú til dags þökk sé sjálftitluðu hasarmynd hans frá árinu 2010, en drápsmaskína Danny Trejo hefur verið til staðar í gegnum flestar kvikmyndir Roberts Rodriguez frá byrjun 21. aldarinnar. Ef einhver var að velta sér fyrir því, þá birtist karakterinn í raun í fyrsta skiptið í fyrstu Spy Kids myndinni sem frændinn harði. Leikstjórinn sjálfur, Robert Rodriguez, staðfesti þetta í viðtali við Comingsoon.net í nóvember síðastliðnum: „Við vildum alltaf gera alvöru ‘Machete’ kvikmynd, en við héldum að við myndum aldrei fá tækifæri til að gera hana, þannig þegar að við gerðum ‘Spy Kids’ þurfti karakterinn nafn. Við skírðum hann Machete eftir myndinni sem við fengum aldrei að gera.“

Það er þá víst að fortíð Machetes er rík og blómstraði hún aðeins við útgáfu týndu myndarinnar fyrir tveimur árum. Nú beinum við hins vegar sjónum okkar að framtíð hans, en glöggir áhorfendur gátu séð titla fyrir tvær Machete kvikmyndir til viðbótar eftir kredit-lista fyrstu myndarinnar: Machete Kills og Machete Kills Again.
Ekki aðeins hefur græna ljósinu verið skellt á bæði framhöldin, heldur hefst framleiðsla á Machete Kills núna í apríl og býst Rodriguez við því að allir sem sluppu lifandi úr fyrstu myndinni snúi aftur: „Machete er svo sannarlega ofurhetja og Machete Kills verður ennþá stærri og metnaðarfyllri en sú fyrsta.“

Í framhaldinu er Machete ráðinn af Bandarísku ríkisstjórninni til að berjast í gegnum Mexíkó og yfirbuga bæði snarbilaðan eiturlyfjabarón og einkennilegan billjóner-vopnasala. Þeir leggja á ráðin um heimsyfirráð og stendur heill her á milli Machetes og illmennanna.

Það verður spennandi að sjá hvernig næsta ævintýri Machetes spilast út, enda var fyrsta myndin svolítið guilty pleasure og alltaf hægt að hafa gaman af grjóthörðu staðreyndum Danny Trejo: „Machete don’t text.“
Hingað til er enginn hugsanlegur útgáfudagur kominn á verkefnið, en vitað er að stiklan fyrir þriðju myndina verður sýnd eftir að Machete Kills klárast.