Luke Grimes í Taken 2

Hinn ungi og upprennandi Luke Grimes hefur gengið til liðs við Taken 2, og mun hann leika kærasta Kim (Maggie Grace) sem var svo eftirminnilega rænt í síðustu mynd. Fyrri myndin kom úr smiðju Luc Bessons er skrifaði handrit og framleiddi, líkt og hann gerir orðið við ótal hasarmyndir, sem flestar þykja í besta falli í meðallagi. Taken sló hinsvegar óvænt í gegn og verðskuldaði það enda var hún dúndurþétt og Liam Neeson var eins svalur og hann hafði nokkurntíman verið. Þakka má velgengni myndarinnar leikstjóranum Pierre Morel sem sá til þess að spennan hélt sér út alla myndina.

Fyrst er framhald var tilkynnt iðaði ég í skinninu af spenningi fyrir fleiri ævintýrum harðnaglans Bryan Mills. Það voru ákveðin vonbrigði er tilkynnt var að Morel myndi ekki snúa aftur í leikstjórastólinn, heldur myndi Olivier Megaton stýra stykkinu. Ferilsskrá hans er ekki eins góð (Transporter 3, Columbiana). Það var samt ekki fyrr en plottið var tilkynnt að ég fór að hafa verulegar áhyggjur. Hinn eftirminnilegi Rade Serbedzija mun fara með hlutverk illmennis, sem svo vill til að var faðir eins af mannræningjunum sem Bryan Mills stútaði í síðustu mynd. Hann er ekkert lamb að leika sér við og rænir Bryan Mills og fyrrverandi konu hans (Famke Janssen) og heldur sem gíslum í hefndarskyni. Í þetta skiptið verður dóttirin Kim því að sýna hvað í henni býr og bjarga pabba gamla frá vonda kallinum, og Luke Grimes sem kærasti hennar mun eitthvað hjálpa til.

Myndin á að koma út í október 2012 og tökur eru þegar hafnar. Hverjir eru sammála mér að þetta plott hljómi alveg hræðilega? Ég verð samt að viðurkenna að Rade Serbedzija er gott val á andstæðingi Neesons.