Lömbin þagna hús til sölu

Hús í Pittsburgh í Bandaríkjunum sem kom fyrir í spennutryllinum The Silence of the Lambs, eða Lömbin þagna, er til sölu.

Húsið, sem er á þremur hæðum, var heimili  raðmorðingjans Jame Gumb, sem Ted Levine lék, sem þekktari var undir nafninu Buffalo Bill, í hinum sígilda trylli frá árinu 1991.

silence-of-the-lambs

Aðalhlutverk í myndinni léku Jodie Foster, sem lék FBI lærlinginn Clarice Starling, og Anthony Hopkins, sem lék mannætuna og fangann Hannibal Lecter.

Engin dýflissa fylgir húsinu, en í húsinu eru hinsvegar fjögur svefnherbergi, bílskúr fyrir fjóra bíla og sundlaug, samkvæmt upplýsingum á fasteignavefnum realtor.com.

Verðið er 300 þúsund Bandaríkjadalir, sem útleggst á um 40 milljónir íslenskra króna.

hús

Dagblaðið The Pittsburgh Tribune-Review segir frá því að eigendur hússins, þau Scott og Barbara Lloyd, bæði 63 ára, hafi keypt húsið í desember 1976, og hafi gift sig þar í anddyrinu árið 1977. Kvöld eitt þegar þau voru að borða kvöldverð árið 1989, bankaði kvikmyndaframleiðandi upp á, og sagðist vera að leita að tökustöðum fyrir kvikmynd, og bað um að fá að taka myndir inni í húsinu.

 

Anddyrið og borðstofan komu svo fram í myndinni frægu, samkvæmt fréttinni, en tökur í húsinu tóku þrjá daga árið 1990.