Lífið hermir eftir listinni á Skriðuklaustri

Hlaðvarpsþátturinn Atli & Elías hefur nú fundið sér annað (auka)heimili á Kvikmyndir.is og verður sarpur þeirra félaga aðgengilegur hér á vefnum von bráðar sem og fleiri veitum. Umrædd sería er nú komin á fjórða tug í þáttafjölda og við hljóðnemann sitja þeir Atli Óskar Fjalarsson og Elías Helgi Kofoed Hansen, sem báðir hafa sankað að sér reynslu í leiklist, skrifum og framleiðslu.

Þeir umsjónarmenn eru miklir mátar og léku til að mynda saman í hinni stórvinsælu kvikmynd, Óróa, og ræða í hverjum þætti opinskátt saman um að vera inni, út úr og við jaðarinn á kvikmyndabransanum á Íslandi.

Í nýjasta innslaginu greinir Elías frá dvöl sinni á Skriðuklaustri þar sem hann fékk með sér Einar Egilsson til að skrifa sjónvarpsseríu. Lífið fer þá aðeins að herma eftir listinni þar sem draugagangur og samanburður við Overlook-hótelið úr The Shining poppar upp í umræðuna ásamt ráðskonunni Skottu.

Þá ræða drengirnir einnig skandalinn í kringum Systrabönd, kúnstina á bakvið Facebook-eventa, Edduverðlaunin og fleira kostulegt úr skemmtibransanum á klakanum litla.
Einar Pétursson sperrir upp eyrun.

Hægt er að hlusta á nýjasta þáttinn hér eða í gegnum Spotify að neðan:

Fjölbreytt efni á einum stað

Á næstunni mun Kvikmyndir.is bjóða upp á veglegt safn íslenskra hlaðvarpsþátta, þar sem sjónvarp, kvikmyndir, skemmtibransinn og fleira þar tilheyrandi verður lykilþemað. Þeir þættir sem í boði verða halda áfram óbreyttri göngu í sinni dagskrársgerð og gengur markmiðið þá frekar í raun út á það að kynna fyrir hlustendum, núverandi og tilvonandi, fyrir því mikla úrvali slíkra þátta hér á landi. Má þá einnig geta að hlaðvarpsþáttur þessa vefs, Poppkúltúr í umsjón Sigurjóns Inga Hilmarssonar og Tómasar Valgeirssonar, heldur áfram sinni göngu og má jafnvel búast við stórum tilkynningum hvað þá dagskrá varðar á næstu dögum.

Svo að auki ef þú, lesandi góður, stendur að stórskemmtilegum podcast-þætti eða hefur góða ábendingu (jafnvel fyrirhugaðar ætlanir um að stofna slíkt) viljum við eindregið hvetja þig til að senda okkur tölvupóst á kvikmyndir@kvikmyndir.is