The Counselor, næsta leikstjóraverkefni Ridley Scott á eftir Prometheus, raðar inn stórum nöfnum í helstu hlutverk. Þar má nefna Michael Fassbender, Brad Pitt og Javier Bardem. Myndin fjallar um lögfræðing (Fassbender) sem ætlar sér að græða stórt á fíkniefnaviðskiptum eftir að hann biður kærustu sína um að giftast sér. Hann fer að vinna með Reiner (Bardem) en þeir ákveða að næla sér í kókaín sem er 20 milljón dollara virði frá Mexíkó og selja það með hjálp frá Westray nokkrum (Pitt) sem er ekki hinn traustverðasti. Þetta fer að sjálfsögðu ekki eins vel og áætlað var.
Nýjustu fregnir herma að Cameron Diaz ætli að taka að sér hlutverk sem Angelina Jolie var að íhuga að leika, það er karakterinn Malkina sem er kynóður argentínskur dópsali í slagtogi við Reiner.
Penelope Cruz er einnig sögð í viðræðum um hlutverk í myndinni en það er ekki á hreinu hvaða hlutverk um ræðir.
Eins og áður hefur komið fram er rithöfundurinn Cormac McCarthy að skrifa handritið þannig að þessi mynd lofar talsvert góðu.
Hvað finnst ykkur um Diaz í svona hlutverki? Þetta er algjörlega nýtt fyrir hana en ég held að hún eigi eftir að standa sig vel, maður sá til dæmis í Being John Malkovich og My Sister’s Keeper að hún er meira en bara góð gamanleikkona.