Allt síðan bandaríski leikarinn Shia LaBeouf réði sig í þjónustu Lars von Triers, í nýjustu mynd hans Nymphomaniac, þá hefur verið mikið rætt og ritað um hvernig kynlífsatriðið myndarinnar yrðu útfærð, en þau ku vera mörg og af grófara taginu.
LaBeouf sjálfur sagði á sínum tíma að í handritinu væri fyrirvari með viðvörun um að leikararnir myndu „gera það í alvöru“. Það er hinsvegar enn mikið tabú í Hollywood að leikarar stundi raunverulegt kynlíf fyrir framan myndavélarnar, og því ekki auðvelt að trúa því að gengið sé alla leið í þeim efnum.
Í mynd Von Trier, Anti-Christ, þá er sýnt raunverulegt kynlíf, en notast við staðgengla, sem er þá vísbending um að líklega verði notast við svipaða aðferð í Nymphomaniac, til að leikararnir þurfi ekki að ganga alla leið í þessu. Framleiðandinn Louise Vesth hefur nú svipt hulunni af leyndarmálinu á bakvið kynlífsatriði myndarinnar, og má segja að aðfarirnar séu ívið skrýtnari en búist var við …
Á vefsíðunni The Hollywood Reporter segir Vesth að í Nymphomaniac verði sýnd kynlífsatriði á milli aðalleikara myndarinnar, þar á meðal á milli þeirra Charlotte Gainsbourg, Stellan Skarsgard, Shia LaBeouf og Uma Thurman. Þegar hún er spurð nánar út í hvort að þessir leikarar muni í raun og veru stunda kynlíf fyrir framan vélarnar, eða hvort þeir muni leika það, þá staðfestir hún að staðgenglar séu notaðir fyrir samfarasenur, en nýjasta tækni notuð til að gera þetta sem raunverulegast.
„Við tókum upp leikarana að þykjast eiga samfarir og fengum svo staðgenglana sem höfðu samfarir í alvörunni, og svo blöndum við þessu saman stafrænt. Þannig að fyrir ofan mitti er það aðalleikarinn og fyrir neðan mitti er það staðgengillinn sem er að stunda kynlífið.“
Vesth sagði að þetta krefðist ótrúlega mikillar eftirvinnslu í kvikmyndaferlinu, og er meðal annars ein af ástæðunum fyrir því að ekki náðist að frumsýna Nymphomaniac á kvikmyndahátíðinni í Cannes sem nú stendur yfir.
Í staðinn verður myndin frumsýnd í Kaupmannahöfn 31. maí nk.