Kvikmyndir.is tekur yfir Laugarasvideo.is

Kvikmyndir.is hefur lengi verið í samstarfi við Laugarásvídeó, sem er af mörgum talin vera besta leigan í bænum. Að minnsta kosti geta flestir verið sammála því að hún sé sú stærsta og fjölbreyttasta, en það segir kannski ekki svo mikið heldur þar sem vídeóleigur virðast vera að deyja hratt út.

Allavega, þá hefur undirritaður fengið admin aðgang að vefsíðu leigunnar og mun það þýða að smá líf verði sprautað í hana héðan í frá. Planið er að vera með reglulegar uppfærslur, jafnvel greinar og þemadálka þar sem mælt er með ákveðnum myndum fyrir þá sem vilja láta koma sér á óvart. Notendum Kvikmyndir.is er síðan velkomið að kommenta eða senda póst og koma með uppástungur um hvað væri hægt að gera. Í gegnum Laugarasvideo.is verður ábyggilega mikið vitnað í þennan vef og örugglega einhverjar umfjallanir frá notendum, þannig að þeim sem finnst gaman að láta kvóta í sig eiga von á góðu.

Okkur finnst þetta býsna spennandi og svo er aldrei að vita nema við tökum einhverja leiki á næstunni þar sem fólk getur unnið fríar leigumyndir.

Tómas Valgeirsson