Kvikmyndir.is forsýning(ar) – Kauptu miða!

Þá er komið að stærsta viðburði okkar til þessa. Ekki núna heldur næstu helgi ætlar Kvikmyndir.is í samstarfi við Myndform að halda tvær sturlaðar stemmningarforsýningar, tvö kvöld í röð. Myndirnar sem verða í boði eru SCOTT PILGRIM VS. THE WORLD og THE EXPENDABLES.

Miðasala er komin í gang og kostar 1200 kr. á sitthvora myndina.

Því miður seljum við ekki í gegnum midi.is núna. Það eru þrjár leiðir til að kaupa miða. Ef þið eruð með kreditkort þá er langþægilegast að smella beint hingað.

Annars ef þið viljið borga með debetkorti/í heimabanka þá sendið þið póst á tommi@kvikmyndir.is, segið hversu marga miða þið viljið og við reddum því á augabragði (ég svara póstum eins hratt og ég get). Þið getið síðan borgað við innganginn klukkutíma fyrir sýningu, með peningum og/eða korti. Við sjáum til þess að það verði nóg af miðum eftir svo meirihlutinn fari ekki í fýluferð. Nánari upplýsingar um sýningarnar hér. Endilega lesið.

Fylgist síðan reglulega með Facebook-síðu okkar. Ég mun láta vita ef það er nóg magn af miðum eftir. Annars er alltaf hægt að dúndra bara póst á mig og spyrja.

UM SÝNINGARNAR:

SCOTT PILGRIM VS. THE WORLD

FORSÝND: Föstudaginn 13. (!) ágúst – 2 vikum fyrir frumsýningu!
HVENÆR? Miðnætti
HVAR? Laugarásbíói, Sal A.
Aldurstakmark: 12 ára
(Sýningin verður hlélaus)

Scott Pilgrim er 22 ára bassaleikari í bílskúrsbandinu Sex Bob-omb og hefur aldrei átt í vandræðum með að ná sér í kærustur, vandamálið hefur frekar verið að losna við þær. En þegar hann hittir loks draumastúlkuna, Ramonu, hefur hún fortíðarbagga sem veldur Scott talsverðum vandræðum, 7 fyrrverandi kærastar sem ætla að drepa hann. Nú verður Scott að losa sig við þá alla til að geta verið með Ramonu sinni.

Myndin var forsýnd á Comic-Con í Bandaríkjunum og hefur verið að raka inn umtali. Annars þarf ekki að segja annað en að Edgar Wright sitji hér í leikstjórastólnum. Hann gerði m.a. Shaun of the Dead og Hot Fuzz. Michael Cera þykir einnig merkilega góður í þessari mynd. Ég veit hversu erfitt það er fyrir suma að trúa því.

THE EXPENDABLES

FORSÝND: Laugardaginn 14. ágúst – cirka viku fyrir frumsýningu
HVENÆR? Miðnætti
HVAR? Laugarásbíói, Sal A.
Aldurstakmark: 16 ára!!
(Sýningin verður hlélaus)

Hér er einhver allra svalasta harðhausasamkoma allra tíma! (Án djóks) Sylvester Stallone leikur foringja hóps málaliða sem eru sendir til eyríkis í Suður-Ameríku til að steypa einræðisherra af stóli. Einu tryggðarbönd Barney eru við félaga sína en í þessari ferð kynnast þeir frelsisbaráttukonunni Söndru (Giselle Itie) en þegar verkefnið fer í loft upp neyðist hópurinn til að yfirgefa eyna í flýti, og skilja Söndru eftir í gini ljónsins. Kvalinn af samviskubiti nær Barney að sannfæra félaga sína um að snúa aftur til eyjunnar til að freista þess að klára verkefnið og bjarga gíslum, þ.á m. Söndru…ef hún er enn á lífi. Meðal annarra leikara eru Jason Statham, Jet Li, Eric Roberts, Dolph Lundgren, Mickey Rourke og Bruce Willis.

Upphaflega var áætlunin sú að taka „double-feature“ með báðum myndunum, en þar sem slíkt plan setur alltof mikla óreiðu á miðasöluna urðum við að sleppa því (gerum það seinna. Lofa!). Líka betra að taka þetta svona, finnst okkur, sérstaklega þar sem um er að ræða tvær afar ólíkar (stemmningar)myndir.

Kvikmyndir.is forsýningar byrjuðu formlega í fyrrasumar með Public Enemies. Sú sýning var heldur lítil en síðan stækkuðum við okkur upp og tókum hlélausa powersýningu á Inglourious Basterds í troðfullum sal. Síðan höfum við verið með myndir eins og District 9, Shutter Island, Kick-Ass og núna seinast Inception. Gæðin hafa alltaf verið í fyrirrúmi og markmiðið er núna að ljúka bíósumrinu með látum… bókstaflega!

Við verðum svo að sjálfsögðu með eitthvað skemmtilegt á undan báðum sýningum.

Þá er bara málið að tryggja sér miða. Góða skemmtun!!

Kv.
Tómas Valgeirsson
(tommi@kvikmyndir.is)