Krueger kemur á morgun

Þá er biðin á enda. Freddy gamli Krueger, sem hefur þá iðju að heimsækja fólk í svefni og myrða það, birtist að nýju á morgun í íslenskum bíóum í glænýrri endurgerð myndarinnar Nightmare on Elmstreet.
Það var hrollvekjuleikstjórinn Wes Craven sem gerði Freddy Krueger að einu best þekkta illmenni hvíta tjaldsins í upphaflegu myndunum, en leikstjóri nýju myndarinnar er Samuel Bayer.

Í kynningu frá SAM bíóunum segir að hér sé farið aftur að uppruna hinnar hrollvekjandi goðsagnar um Freddy Krueger, og hefst myndin á Springwood-matsölustaðnum, þar sem parið Kris Fowles (Katie Cassidy) og Dean Russell (Kellan Lutz) sitja að snæðingi. „Vegna þreytu fellur Dean í stuttan svefn og hittir í draumi afar ófrýnilegan mann sem er þakinn brunasárum, klæddur í rauða og græna peysu og er með klær í stað fingra á annarri hendi. Í draumnum sker þessi maður Dean á háls, sem veldur því á einhvern hátt að Dean sker sjálfan sig á háls í raunveruleikanum og deyr.
Í framhaldinu fer Kris að dreyma þennan sama mann og reynir í kjölfarið að gera hvað sem er til að halda sér vakandi, enda vill hún ekki hljóta sömu örlög og kærastinn hennar heitinn. Fyrrum kærasti Kris, Jesse Braun (Thomas Dekker), reynir að hjálpa henni að halda sér vakandi, en brátt er þessi undarlegi maður, sem kallast Freddy (Jackie Earle Haley), farinn að lauma sér í drauma sífellt fleiri ungmenna í bænum, með hræðilegum afleiðingum. En einhvern veginn hlýtur að vera hægt að stöðva þessa blóðugu martröð…“ segir í kynningu frá SAM bíóunum.

Nú er komið að nýrri kynslóð Íslendinga að kynnast þessum lítt geðþekka morðingja.

Aðdáendur Watchmen myndarinnar ættu að hafa enn betri ástæðu til að mæta í bíó, því í hlutverki Freddys er einmitt einn aðalleikarinn úr þeirri mynd, hinn snoppufríði Jackie Earle Haley. Í fróðleiksmolum sem fylgja myndinni segir að Jackie hafi hrellt meðleikara sína með því að spinna gjarnan textann í tökum. Það gerði hann víst til að gera mótleikarana spenntari, enda vissu þau ekki hvað hann myndi segja í það og það skiptið. Vissulega sérstök nálgun hjá Jackie !

Stórleikarinn Billy Bob Thornton kom víst til greina í hlutverk morðóðu skepnunar, en Haley, hreppti hlutverkið eftir stórgóða frammistöðu í Wathcmen.