Klikkaðir kvikmyndatitlar: Hefur þú séð Killer Condom?

Hvað er það sem gerir góðan eða eftirminnilegan bíómyndatitil?

Stundum er það einfaldleikinn sjálfur, eitthvað á borð við The Thing eða Alien; titlar sem segja allt sem þarf í einu orði. Sumir titlar eru einfaldlega bara svalir, eins og t.d. There Will be Blood og A Fistful of Dollars. En oft eru eftirminnilegustu titlarnir þeir skrítnustu og klikkuðustu sem láta mann halda að kvikmyndagerðarmennirnir hafi verið á einhverjum mjög sterkum efnum en láta mann um leið virkilega vilja sjá myndina, í þeirri von að hún verði jafn æðislega steikt og titillinn eða bara til að trúa því að mynd með slíkum titli hafi yfir höfuð verið framleidd.

Hér ætlum við að lista það sem mætti kalla mest spennandi klikkuðu titlana, semsagt ekki tíu klikkuðustu titlana heldur þá klikkuðu titla sem gera mann mest spenntan til að sjá myndina í raun og veru en ekki bara titill sem hægt er að hlæja að (Sumir titlar eru tjúllaðir en aðeins of kjánalegir til að gera mann spenntan, eins og til dæmis Cannibal Women in the Avocado Jungle of Death). Tíu bestu klikkuðu titlarnir, svo að segja. Þessir tíu titlar voru nóg til að gera allavega mig spenntan til að sjá myndirnar bara fyrir titilinn einn og sér.


Faster Pussycat! Kill! Kill! (1965)

Margar af myndum Russ Meyer höfðu snargeggjaða titla á borð við Supervixens og Mondo Topless, en þessi er klárlega sé besti. Myndin sjálf er stórfurðuleg og afar “campy”, ágætis sakbitin sæla og fyrir löngu orðin költ klassík. Meyer var alræmdur fyrir að gera myndir með íturvöxnu kvenfólki í aðalhlutverki, og þessi var engin undantekning. Tura Satana er ógleymanleg í einu aðalhlutverkinu sem Varla, einn mesti kvennagli kvikmyndasögunnar. Frammistaða hennar er nóg til að gera þessa mynd virði þess að sjá.


Killer Condom (1996)

Líklega halda flestir að mynd með þennan titil sé lítið meira en sniðugur titill en í raun er hún alls ekki slæm. Þessi mynd er jafn furðuleg og titilinn og auk þess þýsk framleiðsla með þýsku tali, þrátt fyrir að gerast í New York! Eins og titillinn gefur til kynna fjallar hún um morðóðan smokk sem gengur laus í New York og samkynhneigði einkaspæjarinn Luigi Mackeroni fer á stúfana og reynir að stöðva smokkinn illa!


Sweet Sweetback’s Badasssss Song (1971)

Titlar gerast varla svalari/klikkaðri en þessi og myndin sjálfur veldur ekki vonbrigðum, er alveg jafn “batshit” og titillinn gefur til kynna. Þetta er líka stórmerkileg mynd í kvikmyndasögunni þar sem hún átti stóran þátt í að starta “Blaxploitation” stefnunni. Hér á ferðinni mynd gerð út úr mikilli reiði leikstjórans Melvin Van Peebles gegn kynþáttahatri í Bandaríkjunum, hún byrjar á titilspjaldi sem segir: “Starring: The Black community” og fjallar um melludólginn Sweetback (leikinn af sjálfum Van Peebles) sem er á flótta frá “the man”.


Surf Nazis Must Die (1987)

Þessi alræmda mynd úr smiðju Troma Films er eiginlega frekar vond, þrátt fyrir þennan æðislega titil. Fyrir utan (SPOILER) hlutann þar sem Leroy, hetja myndarinnar, er drepinn og móðir hans ákveður að hefna sín. Sérstaklega atriðið þar sem hún stingur byssu upp í munn aðalskúrksins og segir “Let me give you a taste of mama’s home cookin’” og skýtur hann svo!

En annars er þetta frekar leiðinleg mynd, því miður…


Snakes on a Plane (2006)

Þessi mynd var smá vonbrigði. Þetta er mögulegast æðislegasti titill sem hægt er að finna á stórri Hollywood mynd, en því miður er myndin sjálf bara þokkaleg. Einstaka sinnum nær hún sömu hæðum og titillinn en að mestu er hún frekar mikil meðalmynd og það er aðallega frammistöðu Samuel L. Jackson og einfaldlega hreinnar geðveiki hugmyndarinnar að þakka að hún virkar yfir höfuð.


Bring Me the Head of Alfredo Garcia (1974)

Sam fucking Peckinpah! Þetta er hugsanlega uppáhalds kvikmyndatitillinn minn. Myndin sjálf er líka mjög góð en þó ekki alveg jafn góð og titillinn, né heldur ein besta mynd Peckinpah (það ku vera The Wild Bunch). En engu að síður mynd sem er virði þess að sjá.


The Fearless Vampire Killers or: Pardon Me, But Your Teeth Are in My Neck (1967)

Á meðan flestar myndir Polanski innihalda oft mjög svartan húmor þá er þetta ein af fáum myndum Polanski sem getur talist vera hrein grínmynd. Hún er ennþá nokkuð skondin í dag þó hún hafi kannski elst neitt rosalega vel, en titillinn er líklega það fyndnasta við hana.


Vampyros Lesbos (1971)

Þessa hef ég ekki séð og skilst hún sé í raun ekki svo góð. En titillinn einn og sér er nóg til þess að ég tel mig verða að sjá hana einn daginn áður en ég dey. Á Wikipedia er henna lýst sem “erótískri hrollvekju” og hún var víst innblásin af smásögu eftir Bram Stoker, höfund Drakúla. Einn gagnrýnenda “blurb” lýsir þessari mynd eflaust best: “if you like a little soft gore with your soft core, this is the movie for you.”

https://www.youtube.com/watch?v=CXx_mnb4Yk8

Sick: The Life and Death of Bob Flanagan, Supermasochist (1997)

Þessi mynd er ekki fyrir viðkvæma (í einu atriði sjáum við Bob Flanagan negla nagla í gegnum liminn á sér, svo dæmi sé tekið) en ef þú höndlar það þá er þetta í raun frábær mynd. Hrífandi portrett af hvað felst í því að vera masókisti ,og líka innsýn inn í sjúkdóm sem flestir vita lítið um þar sem Flanagan þjáist af “cystic fibrosis” (Slímseigjukvilli á íslensku). Svo virtist Bob Flanagan líka bara vera frekar nettur gaur, söngelskur og fyndinn þrátt fyrir allt (hann lést stuttu áður en myndin kom út).


Eternal Sunshine of the Spotless Mind (2004)

Í senn kandídat fyrir keppnina um einn besta kvikmyndatitil allra tíma og um leið líklega skrítnasti titillinn á mynd með stórstjörnu í aðalhlutverkinu. Og þetta er auðvitað algjörlega frábær mynd, jafn falleg og skrítin og titillinn og henni tekst bæði að vera þunglyndisleg og full vonar. Af hverju getur Charlie Kaufman ekki verið aðeins afkastameiri?


Dr. Strangelove or: How I Learned to Stop Worrying and Love the Bomb (1964)

Auðvitað varð þessi mynd að vera með. Hún er fyrir löngu orðin klassík en þetta er ennþá líklega steiktasti titill sem stór Hollywood mynd eftir virtan leikstjóra og full af stórstjórnum hefur nokkurn tíma haft. En það væri gaman ef draumasmiðjan myndi senda frá sér fleiri titla með skrítnum titlum á borð við þennan.


Fleiri góðir:

Being John Malkovich

Caligula Reincarnated as Hitler

The Incredibly Strange Creatures Who Stopped Living and Became Mixed-Up Zombies!!?

The Man Who Loved Cat Dancing

Killer Klowns From Outer Space

Killer Tomatoes Eat France!

Tromeo and Juliet

Hobo With a Shotgun

A Pigeon Sat on a Branch Reflecting on Existence

The Strange Color of Your Body’s Tears