Spennusagna – og hrollvekjuhöfundurinn Stephen King er hvorki aðdáandi Twilight seríunnar né Hunger Games seríunnar, að því er fram kemur í nýju viðtali við hann í breska blaðinu The Guardian. Fyrir fimm árum síðan var hinsvegar annað uppi á teningnum og King hrósaði fyrstu Hunger Games bók Suzanne Collins í hástert.
„Ég las the Hunger Games og fann ekki hjá mér þörf til að lesa meira,“ sagði King við The Guardian og bætti við að sér findist bókin að einhverju leyti eftiröpun á bók hans The Running Man frá árinu 1982, sem gerð var bíómynd eftir með Arnold Schwarzenegger í aðalhlutverkinu. The Running Man er vísindaskáldsaga sem gerist í fjarlægri eftirstríðsframtíð þar sem keppendur í leik eru eltir af „veiðimönnum“ sem eru ráðnir til að drepa þá.
Í ritdómi um fyrstu Hunger Games bókina árið 2008, var King öllu jákvæðari, og sagðist ekki hafa getað lagt bókina frá sér: „Þar sem þetta er fyrsta bókin í þríleik, þá sýnist mér að aðal spurningin sé hvort lesendur munu hafa nógu mikinn áhuga til að halda áfram og fá að vita hvað gerist næst hjá Katniss,“ skrifaði King. „Ég veit að ég hef það.“
King kallaði síðan Twilight seríu Stephanie Meyer, „tweenager porn“, eða unglingaklám í ónákvæmri lauslegri þýðingu. „Þær eru í raun ekki um vampírur eða varúlfa. Þær eru um það hvernig ást stúlku á pilti, getur breytt honum úr vondum í góðan.“
King lét ekki hér við sitja heldur bætti við í viðtalinu, að „mömmuklámið“ ( Fifty Shades of Grey ) væri ekki hans tebolli heldur.
Nýjasta bók King heitir Doctor Sleep og er framhald á einni frægustu sögu hans, The Shining. Bókin fjallar um Danny, strákinn í The Shining, sem nú er orðinn fullorðinn alkóhólisti sem glímir við drauga fortíðar.