Kiefer Sutherland segir að það verði 24 bíómynd

Fyrir mánuði síðan sagði Reuters fréttastofan frá því að mynd byggð á sjónvarpsþáttunum vinsælu 24 með Kiefer Sutherland, yrði ekki að veruleika, þó svo að Kiefer hefði fullyrt annað í fjölmiðlum. 20th Century Fox lagði verkefnið á hilluna samkvæmt fréttum, þar sem handritið var ekki nógu gott.
En Sutherland hefur ekki lagt árar í bát og er enn sannfærður um að myndin verði að veruleika, og þá er spurning hvort að einhverjir aðrir en Fox komi til með að framleiða myndina.

Kiefer var gestur morgunþáttarins Good Morning America á ABC sjónvarpsstöðinni nú nýlega, þar sem hann var að kynna Broadway leikritið That Championship Season, sem hann leikur í.

Hann var spurður að því í þættinum hvort að það yrði 24 bíómynd, og Kiefer sagði: „Já, það verður 24 bíómynd.“

Síðar í þættinum Live með Regis og Kelly sagðist Sutherland enn líða eins og 24 væri hluti af sínu lífi og hann ætti sitthvað ósagt. Þar ítrekaði hann að það yrði gerð bíómynd.

„Vonandi byrjum við í janúar nk. og ég held að Tony Scott sé einn af þeim leikstjórum sem hafa sýnt verkefninu mikinn áhuga, og hann yrði frábær, þannig að ég er mjög spenntur fyrir því.“
Nú er spurning hvað gerist, því enn er þetta pínu óljóst allt saman. Þangað til þá er Sutherland að leika í That Championship Season á Broadway.