Kevin Smith segir martröð að vinna með Willis

Leikstjórinn Kevin Smith fékk draum sinn uppfylltan þegar hann fékk loks að gera mynd með stórleikaranum Bruce Willis. Myndin hlaut nafnið Cop Out en fékk heldur slæmar viðtökur þegar hún var gefin út, og er talin með slakari myndum sem báðir aðilar hafa látið frá sér. Smith hefur ekki farið hljóðum orðum um hversu erfitt væri að vinna með Willis, en í nýlegu viðtali við útvarpsþáttinn Opie & Anthony fer hann í smáatriðin.

Samkvæmt Smith var engan veginn hægt að leikstýra Willis. Hann tók ekki neinum ábendingum og var algengt að leikarinn byrjaði að öskra og æpa þegar hann var beðinn um að breyta hinu og þessu í vissum atriðum. „Öll reynslan kramdi í mér sálina. Hann neitaði að taka við ábendingum, hann neitaði að sitja fyrir í myndatökum fyrir plakatið og hann neitaði að standa fyrir axlarskot.“ sagði Smith, en axlarskotin svokölluðu er þegar leikari stendur með bakið í myndavélina, á móti öðrum leikara sem fer með línurnar sínar.

Smith sagði góðvin sinn og stjörnuna Ben Affleck hafa lent í svipaðri reynslu, en Affleck lék á móti Willis í stórmyndinni Armageddon. „Í axlarskotum þurfti maður að leika á móti þeim aðstoðarmanni sem var líkastur Bruce aftan frá, því hann nennti ekki að standa þarna án þess að fá að gera neitt.“ hafi Affleck sagt um leikarann skapmikla.

Þegar tökum á Cop Out lauk hélt framleiðslan veislu handa öllum sem unnu við myndina, en Bruce Willis var sá eini sem ekki mætti. Hélt Kevin Smith þá ræðu þar sem hann þakkaði öllum kærlega fyrir vinnu sína. „Nema Bruce Willis, því hann er fífl“. Að lokum sagði Smith, „Margir eru eftir að halda að ég sé að reyna að kenna honum fyrir að myndin hafi verið léleg, en það er ekki satt. Hann er bara asni.“

– Bjarki Dagur