Keith Richards snýr aftur sem pabbi Jack Sparrow

Keith Richards, gítarleikari bresku rokkhljómsveitarinar The Rolling Stones, mun snúa aftur á hvíta tjaldið í nýju Pirates of the Carribean myndinni, On Stranger Tides.

Í frétt Reuters fréttastofunnar af framleiðslu myndarinnar er komið inn á þetta: „Depp[…]hefur talað um að Richards hafi verið sér innblástur þegar hann var að móta persónu sína Jack Sparrow í Pirates of the Carribbean myndunum, en þeir félagarnir eru nú báðir við tökur á fjórðu myndinni, þar sem Richards snýr aftur sem faðir Sparrows.“

Keith Richards lék föður Jack Sparrow í Pirates of the Carribean: At worlds End frá árinu 2007. Ekki er vitað hversu stórt hlutverk Richards verður í nýju myndinni, sem verður frumsýnd 20. maí nk.

Í nýju myndinni, On Stranger Tides, hittir Jack Sparrow konu úr fortíðinni sem leikin er að Penelope Cruz. Hann er ekki viss hvort að hann elski hana, eða hvort að hún sigli undir fölsku flaggi, og ætli að nota hann til að hjálpa sér að finna brunn eilífrar æsku. Þegar hún neyðir hann um borð á skipinu Queen Anne´s Revenge, sem sjóræninginn Svartskeggur, sem leikinn er að Ian McShane, stýrir, þá lendir Jack Sparrow í óvæntu ævintýri þar sem hann veit ekki hvort hann á að hræðast meira; Svartskegg eða konuna úr fortíðinni.