Kastljós: Sergio Corbucci (3. hluti af 3)

 

IL GRANDE SILENZIO (1968)

 

Í dag er Django Unchained frumsýnd hér á landi og bíða margir spenntir. Af því tilefni hef ég verið að rifja upp verk leikstjórans Sergio Corbucci (fyrri innslög má finna hér og hér), en Tarantino hefur ítrekað lýst því yfir að þessi nýjasta mynd hans sé undir gríðarlegum áhrifum frá ítalska spaghettí-leikstjóranum og að miklu leyti persónulegur óður hans til meistarans. Í þessu innslagi ætla ég að fjalla um uppáhaldsvestrann minn úr fórum Corbuccis, Il Grande Silenzio (The Great Silence, 1968) sem er mögulega uppáhaldsvestrinn minn yfir höfuð, ásamt The Good, The Bad and The Ugly eftir Sergio Leone. Ómögulegt er að gera upp á milli myndanna tveggja, enda gætu þær vart verið ólíkari, þrátt fyrir að einkennast báðar af sterkum hefðum spaghettí-vestrans. Ætli það fari ekki eftir dagamuni hvor sé í meira uppáhaldi. Þegar þetta er skrifað er að nálgast hádegi á heldur myrkum rigningardegi og þá verð ég að segja að Silenzio sé meira uppáhalds. Silenzio er vetrarvestri, Ugly er meiri sumarvestri. Silenzio er þunglyndislegur, hrottafenginn og níhilískur. Ugly er meira partístuð, ævintýralegur og epískur. Góði gæinn sigrar þann vonda og allt fer vel að lokum, köttur úti í mýri og svo framvegis. Silenzio er andstæðan við allt þetta. Á yfirborðinu er söguþráðurinn ekki fjarri öðrum vestrum tímabilsins, en í framsetningu og úrvinnslu verður til einstök kvikmynd sem er myrk, ruddaleg, þrælpólitísk og full vonleysis.

 

Andhverfur vestri

Ég hef þegar minnst á að Corbucci hafi gjarnan leikið sér að því að snúa hefðum á haus og spila markvisst með væntingar áhorfenda í myndum sínum, en Il Grande Silenzio gengur allra lengst í þeim málum. Myndin er á sinn hátt andhverfur eða öfugur vestri – það mætti kalla hana „anti-vestra“ – þar sem hún hvolfir hefðbundum senum og söguefnum og býr til furðulegar andstæður við það sem gengur og gerist, ekki aðeins innan vestra-geirans, heldur hvað varðar formfasta sagnahefð almennt og þá sérstaklega lög og reglur vestrænnar Hollywood-kvikmyndagerðar. Andhverfan sést strax í upphafsskoti myndarinnar: einmanalegur kúreki ferðast á hestbaki – eins og von er og vísa í þessum myndum – nema hvað, hann ríður í gegnum snævi þakið landslag. Fjarri eru sandar eyðimerkurinnar, hiti sólarinnar og hrjóstrugar auðnir Almeríu á Spáni, þar sem langflestir spaghettívestrar voru teknir. Sögusvið Il Grande Silenzio er frostaveturinn 1899 og kunnugleg eyðimörkin víkur fyrir nístandi köldum snjósköflum. Ekki líður á löngu þar til dularfulli kúrekinn lendir í byssubardaga og mjallhvítur snjórinn litast æpandi rauðu kvikmyndablóði. Auðvitað er þetta hetjan okkar – útlaginn Silenzio sjálfur, leikinn af Jean-Louis Trintignant – og árásarmennirnir eru mannaveiðarar (e. bounty hunters) sem vilja drepa hann. Að bardaganum loknum liggja allir dauðir fyrir utan einn mann sem kemur hlaupandi út úr grenitrjánum og biður sér vægðar. Hann lofar að hætta að veiða menn og drepa og hetjan okkar veitir honum miskunn á afar ofbeldisfullan máta. Silenzio leyfir honum að lifa en skýtur af honum fingurna til að tryggja að hann geti aldrei aftur haldið á byssu. Upphafssenan er lýsandi fyrir það sem koma skal og einkennandi fyrir stíl Corbuccis. Ekki nóg með að Silenzio sýni miskunn með hrottalegu ofbeldi, heldur er mannaveiðarinn skotinn augnabliki síðar af öðrum útlögum sem mæta á staðinn. Þetta er fyrsti vottur af þeim níhilisma sem liggur eins og rauður þráður í gegnum alla kvikmyndina.

 

Í örstuttu máli segir myndin frá hópi útlaga sem hafa verið kúgaðir og neyddir til þess að flýja út í óbyggðir. Þetta eru að mestu leyti bændur og vinnumenn, ekki byssubófar eða ofbeldismenn, og þeir eru í stöðugri hættu vegna mannaveiðara sem sitja um þá. Útlagarnir bíða þess að send verði út yfirlýsing um sakaruppgjöf og að þeir fái að snúa aftur til síns heima, en biðin er löng og veturinn kaldur. Leiðtogi mannaveiðaranna er Loco (Klaus Kinski), miskunnarlaus hrotti sem vílar ekki fyrir sér að skjóta menn í bakið frammi fyrir mæðrum sínum (þannig er hann kynntur til sögunnar). Útlaginn Silenzio er ráðinn af ekkju eins útlagans til að drepa Loco, en sjálfur hefur hann harma að hefna þar sem yfirmaður Locos, dómarinn í bænum Snow Hill, var einn þeirra sem var ábyrgur fyrir dauða foreldra hans þegar Silenzio var ungur drengur. Samúð áhorfenda liggur með útlögunum, sem eru ranglega ásakaðir og kúgaðir af spilltu yfirvaldi, á meðan boðberar laga og reglu eru fégráðug og ofbeldisfull illmenni. Þetta er enn eitt dæmið um hvernig Il Grande Silenzio er andhverfur vestri: við höldum með útlögunum á móti dómsvaldinu, ólíkt hefðbundnum vestrum þar sem mannaveiðarar á borð við hina nafnlausu persónu Clint Eastwoods í dollaraþríleik Sergio Leones elta uppi vonda útlaga.

Hin nafnlausa hetja Clints færir okkur að öðru mikilvægu dæmi um öfugsnúna nálgun Corbuccis á efniviðinn, þar sem hann gerir í raun gráglettið grín að hinni klassísku hetju spaghettí-vestrans. Sú hetja birtist hvað sterkast í dollaraþríleiknum (og að sama skapi í persónu Charles Bronsons í Once Upon A Time In The West): þögull, dularfullur töffari sem segir ekki meira en hann þarf, ef hann þá opnar munninn á annað borð. Hver einasta setning er muldruð með pírð augu og kemur annað hvort mikilvægum upplýsingum til skila eða segir eitthvað harkalegt og svalt sem hæfir ímynd hans. Corbucci gengur alla leið með þessa staðalímynd og gerir hetjuna Silenzio mállausa. Hann tjáir sig bara með (fremur sviplausum) svipbrigðum og augnaráði, en er annars nánast eins og innantómt vélmenni sem er fyrst og fremst til staðar til að þjóna tilætluðu hlutverki. En Corbucci lætur ekki staðar numið við einfalt, gráglettið grín, heldur setur það fram af fullri alvöru með því að tvinna málleysi hetjunnar saman við söguþráðinn: þegar foreldrar hans voru myrtir skáru illvirkjarnir raddböndin úr drengnum svo hann gæti ekki sagt neinum frá því sem hann sá.

 

Makleg málagjöld

NB!: Áður en lengra er haldið er mikilvægt að benda á að afar erfitt er að tala að ráði um Il Grande Silenzio án þess að fjalla um söguþráðinn og þar af leiðandi að koma með spilla, eða spojlera. Ég mun ekki lýsa endalokum myndarinnar nákvæmlega, en mun engu að síður gefa sterklega í skyn um hvers lags endi er að ræða. Þeir sem vilja halda sig fjarri geta því lokað glugganum núna og vafrað eitthvað út í sólarlagið. Ég vil þó einnig benda á að þegar ég sá myndina í fyrsta sinn vissi ég allt um söguþráðinn og sérstaklega um málalok, en það hindraði mig ekki í að njóta myndarinnar og sitja eftir agndofa að áhorfi loknu.

Il Grande Silenzio er besta dæmið um stílbrögð meistara Corbucci og sker sig úr vestrahefðinni á ýmsa vegu, en það sem gerir kvikmyndina hins vegar einstaka er lokauppgjörið. Um það vil ég sem minnst segja, en költ-leikstjórar á borð við Alex Cox og Michael Haneke hafa báðir lýst endalokunum sem þeim verstu í manna minnum. Ég leyfi mér þó að kjafta frá því að í anda þess sem á undan kemur í myndinni hvað varðar öfugsnúin handbrögð á hefðbundnum efnivið er endirinn engin undantekning. Væntingum áhorfenda sem hafa horft á tugi vestra (og kvikmynda almennt) þar sem hinir góðu sigra og hinum illu er refsað er algjörlega snúið á hvolf og fleygt út um gluggann. Ég held að það sé ein aðalástæðan fyrir því að Il Grande Silenzio er í svo miklu uppáhaldi hjá mér. Það er sjokkerandi að sjá mynd sem endar ekki vel, sérstaklega innan geira þar sem hamingjusöm endalok eru allsráðandi, og að því leyti er myndin einstaklega hressandi – þótt hún sé samtímis full vonleysis. Þess má geta að annar og mun glaðlegri Hollywood-endir var tekinn upp, sem hægt er að sjá á DVD-útgáfum og finna á YouTube, en sem betur fer var hann bara gerður til vara og (næstum) aldrei sýndur. Reyndar er sá endir svo yfirgengilega glaðlegur og út úr kú að það er nánast hægt að líta á hann sem enn eina ádeiluna á klisjur Hollywood.

Í tengslum við svartsýnina sem einkennir þessa mynd Corbuccis er ekki hægt að líta framhjá menningarlegu og pólitísku samhengi þess tíma, en myndin var gerð árið 1968. Corbucci var frekar róttækur vinstrimaður og pólitískar hliðar kvikmynda hans væru efni í annan pistil, sem kannski mun einhvern tímann líta dagsins ljós. Vestrar á borð við Il Mercenario (1968) og Vamos a matar, compañeros (1970) snerta óbeint á eldfimu ástandi róttækra byltingarmála á sjöunda áratugnum, en báðir gerast þeir á tímum mexíkósku byltingarinnar snemma á 20. öld og Corbucci nýtir sér samanburðinn til að deila á eigin samtíma. Hann sprautaði stórum skammti af byltingarpólitík inn í þessar myndir og að einhverju leyti er um svipað að ræða í Il Grande Silenzio. Samkvæmt leikstjóranum Alex Cox tók Corbucci dauða byltingarleiðtoganna Che Guevara og Malcolm X mjög nærri sér og að einhverju leyti eru endalok Silenzio virðingarvottur til þeirra og bölsýnin sem fylgir lokaatriðinu einkennandi fyrir það tilfinninga- og hugarástand sem leikstjórinn fann fyrir á þessum tíma. Mig grunar að niðurdrepandi endalok myndarinnar séu ein helsta ástæða þess að Il Grande Silenzio hefur að miklu leyti verið óséð í gegnum árin og samkvæmt Alex Cox virðist sá grunur vera réttur: til stóð að endurgera myndina í Hollywood á sínum tíma – af Clint Eastwood sjálfum! Sem ætlaði meira að segja að leika aðalhlutverkið og þar af leiðandi færa brandara Corbuccis í hring! – en stórlaxarnir hjá 20th Century Fox neituðu að framleiða myndina, fyrst og fremst vegna þess að þeim var svo illa við endalokin. Það er svo sem ekki skrítið, enda hefði Il Grande Silenzio aldrei orðið til innan raða Hollywood og það eitt og sér – og algjörlega óháð því að um vestra sé að ræða – ætti að vera næg ástæða til að leita myndina uppi.

 

PS: Ennio Morricone

Að lokum get ég ekki staðist að minnast örstutt á kvikmyndatónlistina sem prýðir myndina, en utan þess að vera einn uppáhaldsvestrinn minn er hljóðsporið að Il Grande Silenzio líka ein uppáhaldsplatan mín með meistara Morricone. Í síðasta innslagi minntist ég á að músíkin úr Navajo Joe væri í miklu uppáhaldi og það er alveg satt – í raun og veru er mestallt sem Morricone lét frá sér á þessum tíma í uppáhaldi hjá mér – en Il Grande Silenzio sker sig úr hópi annarra vestra vegna þess að tónlistin er svo fjölbreytileg út í gegn. Þannig er hún t.a.m. afar ólík Navajo Joe, sem byggir fyrst og fremst á endurnýtingu á sömu þemum aftur og aftur, en þótt Silenzio nýti sannarlega sömu þemurnar ítrekað koma útsetningarnar úr öllum áttum og spanna mun breiðara tónlistarsvið. Í raun er ágætt að líkja músíkinni í Silenzio við músíkina í The Good, The Bad and the Ugly (annað uppáhalds sándtrakk) hvað varðar fjölbreytileika, þótt sú fyrrnefnda nái aldrei sömu epísku hæðum og sú síðarnefnda. Hér að ofan má finna YouTube klippu með úrvali af tónlist úr myndinni, fyrir þá sem vilja setja sig í gírinn fyrir myrkasta, níhilískasta og mögulega besta vestra sem gerður hefur verið.