Joss Whedon tilkynnir Shakespeare mynd

Svo virðist sem sumir hafi fleiri klukkutíma í sólarhringnum en flest okkar. Joss Whedon er sennilega einn þeirra. Hann tilkynnti fyrir stuttu að hann hefði klárað tökur á myndinni Much Ado About Nothing, byggðri á leikriti Shakespears. Fyrir þá tilkynningu vissi enginn af því að hann væri að gera mynd byggða á Shakespear, og kom þetta talsvert á óvart, því Whedon hefur ekki beint verið að taka því rólega undanfarið. Tökum á The Avengers er nýlokið – sem væri nóg fyrir flesta – og auk þess er hann að vinna í seríu 9 af Buffy og fleiri myndasögum og vefseríum.

Sagan er einhvernvegin þannig að þegar tökum Avengers lauk hafði Whedon planað að fara í mánaðarlangt frí með konunni sinni til Ítalíu, og koma svo heim og klára eftirvinnsluna. En í staðin ákváðu þau að gera fyrrnefnda mynd – sem hafði verið að veltast í kollinum á Whedon í einhvern tíma. Kallað var í vini til að hjálpa með myndina – og bað Joss þá að láta engan vita strax. Þau stofnuðu lítið micro-stúdíó, Bellwether Pictures, sem ætlað er að framleiða fleiri smá og stór verkefni fyrir alla miðla. Þegar 10 daga löngum tökunum, sem fóru fram heima hjá Whedon, lauk svo, tilkynntu þau að myndin væri á leiðinni.

Í helstu hlutverkum eru mörg kunnuleg andlit, sérstaklega fyrir þá sem hafa séð fyrri verk Whedons, en þar á meðal eru Nathan Fillion, Sean Maher og Clark Gregg. Amy Acker og Alexis Denisof fara með aðalhlutverkin. Myndin ætti að vera tilbúin vorið 2012, á svipuðum tíma og The Avengers, og mun svo birtast á kvikmyndahátíðum – „because it’s fancy“ að sögn Whedons.

Hér er heimasíða myndarinnar, með fréttatilkynningu sem ber handbragð Whedons. Entertainment Weekly birti svo fljótlega viðtal við Whedon, Sean Maher og Amy Acker, sem varpar einhverju ljósi á verkefnið.

Eins mikið og ég hlakka til að sjá The Avengers, þá er virkilega gaman að myndum sem maður veit að var ástríðuverkefni þeirra sem tóku þátt – sem er erfiðara að segja um stórmyndir á borð við þá fyrgreindu. En ég segi bara, því meira af Whedon, því betra. Hvað segið þið?