Jörð skelfur hjá Johnson

dwayne the rock johnsonHercules leikarinn Dwayne Johnson hefur náð góðum árangri við að endurlífga kvikmyndaseríur, en þar má nefna Journey seríuna og Fast and the Furious seríuna. Það kemur því ekki á óvart að menn sjái möguleika í að fá leikarann í nýjar seríur, en New Line kvikmyndafyrirtækið vill nú gera stórslysamyndina San Andreas með Johnson í aðalhlutverkinu.


Leikstjóri verður Brad Peyton og handritshöfundar The Conjuring, þeir Carey Hayes og Chad Hayes skrifa handrit.

Myndin fjallar um það þegar gríðarlega öflugur jarðskjálfti ríður yfir Kaliforníuríki í Bandaríkjunum og söguhetjan þarf að leggja á sig erfitt ferðalag yfir ríkið þvert og endilangt til að bjarga brottfluttri dóttur sinni.

Þetta verkefni hefur verið í þróun síðan árið 2011

Johnson er nú við tökur á Hercules, eins og leikarinn er duglegur að láta vita af á Twitter síðu sinni, sem leikstýrt er af Brett Ratner.

Einnig eru tökur hafnar á Fast & Furious 7 í Atlanta í Bandaríkjunum.

Áætlað er að hefja tökur á San Andreas á fyrsta fjórðungi næsta árs.

New Line og Johnson unnu síðast saman að Journey 2: The Mysterious Island, og nú er þriðja myndin í þeirri seríu í undirbúningi þar sem Johnson mætir aftur til leiks í aðalhlutverkinu. Skemmst er að minnast þess að íslenska leikkonan Anita Briem lék í fyrstu myndinni ásamt Brendan Fraser.

Johnson hefur varla stigið feilspor í miðasölunni upp á síðkastið. Myndir hans Snitch, G.I. Joe: Retaliation, Pain & Gain og Furious 6 fengu allar fína aðsókn.

Johnson lætur sér reyndar ekki kvikmyndirnar nægja því hann er einnig að gera raunveruleikaþættina The Hero fyrir TNT sjónvarpsstöðina.

Tilkynning: föstudagsumfjöllun Hilmars Snorra Rögnvaldssonar verður ekki á sínum stað í nokkrar vikur, hann kemur þó til baka áður en mikið líður.