Jackman vill fleiri söngvamyndir

Hugh Jackman, sem hlaut Golden Globe verðlaunin á dögunum fyrir leik sinn í Vesalingunum, vill halda áfram á sömu braut. „Ég held ég vilji gera söngleik næst sem er kannski aðeins léttari,“ sagði Jackman í samtali við blaðamann e-online.

Jackman segist til dæmis ekkert hafa á móti því að leika Sky Masterson í kvikmyndaútgáfu af söngleiknum Guys and Dolls. „Það gæti verið gaman.“

Guys and Dolls fjallar um fjárhættuspilara í New York ( Sky Masterson ) sem þarf að sannfæra konu um að ferðast til Havana á Kúbu með sér.

Kvikmyndaútgáfa Guys and Dolls frá árinu 1955 var með Marlon Brando í hlutverki Sky. Einnig léku í myndinni Frank Sinatra, Jean Simmons og Vivian Blaine.

Vilja menn fá að sjá Jackman í fleiri söngvamyndum, eða á hann að einbeita sér að myndum eins og Wolverine?

Söngvamyndin Vesalingarnir, eða Les Miserables, verður frumsýnd á Íslandi 25. janúar nk.