J.J. Abrams sagður ætla að leikstýra Star Wars

Kvikmyndavefurinn The Wrap heldur því fram að J.J. Abrams hafi verið ráðinn til að leikstýra næstu Star Wars-mynd. Heimildarmaður Deadline segir einnig að búið sé að ganga frá samningnum.

Samkvæmt The Wrap var Ben Affleck nálægt því að fá þetta eftirsótta starf en Abrams hafi á endanum þótt besti kosturinn.

Abrams útilokaði aðild sína að Star Wars: Episode 7 í desember og sagðist vera upptekinn við að leikstýra næstu Star Trek-mynd.

Abrams er höfundur sjónvarpsþáttanna Lost. Hann hefur leikstýrt Mission: Impossible III, Star Trek og einnig framhaldsmyndinni Star Trek Into Darkness sem er í eftirvinnslu.