Indiana Jones snýr aftur 19. júlí 2019!

Disney kvikmyndafyrirtækið hefur nú tilkynnt opinberlega að ný Indiana Jones mynd, sú fimmta í röðinni, með Harrison Ford enn á ný í titilhlutverkinu, verði frumsýnd 19. júlí árið 2019. Ford verður orðinn 77 ára gamall þegar myndin verður frumsýnd. Steven Spielberg leikstýrir myndinni, en hann hefur leikstýrt öllum Indiana Jones myndunum.

Raiders-of-the-Lost-Ark-620x412

Ekki er minnst á George Lucas framleiðanda fyrri mynda, né heldur Shia LaBeouf, sem lék í síðustu mynd á móti Ford, í tilkynningu Disney.

„Indiana Jones er ein stærsta hetja kvikmyndasögunnar og við getum ekki beðið eftir að sjá hann aftur á hvíta tjaldinu árið 2019,“ sagði Alan Horn forstjóri The Walt Disney Studios í tilkynningunni.

Indiana Jones kom fyrst fram á sjónarsviðið í Raiders of the Lost Ark árið 1981, en hún er talin ein af 100 bestu bandarísku myndum sögunnar.  Næst kom Indiana Jones and the Temple of Doom árið 1984, þá Indiana Jones and the Last Crusade árið 1989 og loks Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull árið 2008.

Myndirnar fjórar hafa rakað inn um tveimur milljörðum Bandaríkjadala í tekjur í bíó um heim allan.