Það virðist sem að því meira sem við fáum að vita um hina hugsanlegu Kick-Ass 2 (Balls to the Wall?), því einkennilegri verður staðan. Myndin er hvorki komin með staðfestan leikstjóra, leikhóp eða handrit, en samt vill höfundur myndasagnanna, Mark Millar, meina að hún fari í tökur nú í sumar. Nýlega var Mark í viðtali við AskMen UK og kom hann þar söguþræði myndarinnar á hreint fyrir þá sem annaðhvort hafa ekki enn lesið framhaldið eða ætla ekki að gera það:
„Kick-Ass var um strák sem elskaði ofurhetjur og fór út klæddur sem ein til að gera það sem hann hefur alltaf dreymt um. Framhaldið er meira eins og A Clockwork Orange og fjallar um hóp af littlum skítum sem hugsa bara: ‘Guð minn góður, það eru svo margar ofurhetjur á sveimi; fokkum þeim upp!’
Þau klæða sig sem ofur-illmenni og fara um í leit að hetjunum, en á leiðinni fremja þau allskonar rán og nauðganir. Kick-Ass var um það hvernig alvöru ofurhetja myndi reynast, á meðan Kick-Ass 2 er um alvöru ofur-illmenni.“
Eins og vitað er þá hefur enginn út hinum upprunalega leikhóp fest sig við framhaldið ennþá, en það er ekki bara hinn upprunalegi leikhópur sem hefur ekki verið staðfestur; þar sem við myndina bætast tveir mikilvægir karakterar:
„Mother Russia er pumpuð upp á sterum – hún er hin fullkomna drápsmaskína. Ásamt henni er maður sem hefur lagst í helgan stein og er búinn að fá nóg af litlu skítunum í hverfinu; út frá því stofnar hann lið af ofurhetjum. Þegar að ég skrifaði karakterinn hafði ég Johhny Depp í huga, en ég sagði frá því í öðru viðtali og á svipstundu var þetta út um allt.“
Í september síðastliðnum talaði Millar um að möguleikinn á framhaldi fari dvínandi, þar sem aldur leikarana má ekki vera of hár, og í raun hafa aðstandendur bara til ársins 2013 til að gera myndina. Vonum bara að tökur séu virkilega að fara að hefjast í sumar.