Golden Globe verðlaunin voru afhent í byrjun vikunnar við glæsilega athöfn en það eru samtök erlendra blaðamanna í Hollywood sem veita verðlaunin, bæði fyrir það sem best er gert í kvikmyndum og í sjónvarpi. Óvæntasti sigurvegari kvöldsins að margra mati var hin ævisögulega kvikmynd Bohemian Rapsody um bresku hljómsveitina Queen og söngvara hennar Freddie Mercury, en myndin sjálf vann verðlaunin í flokki dramamynda, og aðalleikarinn, Rami Malek, var valinn besti leikarinn.
En hvar geta landsmenn séð þessar verðlaunamyndir. Hverjar eru komnar í bíó og hverjar ekki? Og hverjar eru ekki á leiðinni í bíó hér á landi?
Fyrsta ber að telja Bohemian Rhapsody, en hún var frumsýnd á Íslandi 2. nóvember 2018, og hefur verið sýnd við miklar vinsældir síðan þá. Enn er verið að sýna hana í Háskólabíói, einu sinni á dag, en myndin er ekki komin með útgáfudagsetningu á VOD.
Glenn Close var valin besta leikkona í dramakvikmynd fyrir hlutverk sitt í The Wife. Sú mynd verður frumsýnd á í bíó á Íslandi 15. febrúar nk. Olivia Colman var valin besta leikkona í söngva – eða gamanmynd, fyrir hlutverk sitt í myndinni The Favourite. Sú mynd er hvorki skráð með VOD útgáfudagsetningu né hefur hún frumsýningardag í bíó hér á Íslandi.
Hinn óskarsverðlaunaði Christian Bale fékk verðlaun fyrir túlkun sína á fyrrum varaforseta Bandaríkjanna, Dick Cheney, í kvikmyndinni Vice, í flokki söngva – eða gamanmynda, en Vice kemur í bíó á Íslandi 1. febrúar nk.
Regina King fékk Golden Globe styttuna fyrir leik sinn í If Beale Street Could talk, en hún virðist hvorki vera á leið í bíó né á VOD á Íslandi, miðað við þær upplýsingar sem kvikmyndir.is býr yfir.
Næst erum við komin að Mahersa Ali sem fékk verðlaunin fyrir meðleik í flokki gamanmynda í Green Book. Sú mynd kemur í bíó á Íslandi nú á föstudaginn, 11. janúar, en hún fékk jafnramt Golden Globe verðlaun fyrir handrit.
Hvað leikstjórn varðar þá vann Alfonso Cuarón styttuna fyrir leikstjórnina fyrir Roma, en sú mynd er bæði sýnd á Netflix og í Bíó paradís um þessar mundir. Roma var jafnframt valin besta erlenda kvikmyndin.
Sigurvegari í flokki teiknimynda var frumsýnd um jólin hér á Íslandi og er enn í bíó, Spider-Man: Into the Spider-Verse.
Og þá er það tónlistin. Best þótti hún í kvikmyndinni First Man, sem kom í bíó 12. október sl., og er hvorki í bíó né á VOD nú um stundir, en kemur út á VOD þann 14. febrúar nk. Besta lagið í kvikmynd þetta árið var valið Shallow úr kvikmyndinni A Star is Born, eftir Lady Gaga og Mark Ronson. Sú mynd er enn í bíó, og var enn sýnd fyrir fullum sal stuttu fyrir jól, en kvikmyndin hefur verið í sýningum í bíó síðan 5. október sl.