Hvaða bíógrímur eru gagnslausar á tímum COVID?

Árið 2020 hefur, ásamt fjölda öðru, aukið vitundarvakningu fólks gagnvart áþreifanlegum grímum af ýmsu tagi. COVID-19 hefur sett veröldina á hliðina og skráð sig með ógnarhraða í sögubækurnar. Fólk víða um heim hefur gripið til hugmyndaríkra ráða með alls konar grímur, á almennum vettvangi eða í hlutverkaleik í einangrun.

Á undanförnum vikum hefur neytandinn, sem aldrei fyrr, sankað að sér streymisveitum, línulegri dagskrá og afþreyingu, ekki síst ævintýrum. Þá sakar ekki að renna yfir þekktar grímur kvikmyndasögunnar og sjá hvernig sumar fígúrur myndu spjara sig í farsótt á við kórónuveiruna. Til að krydda þetta fylgir einkunn, sem metin er eftir því hvort eða hvernig grímurnar gagnast í núverandi faraldri.

Svarthöfði 

Svarthöfði er búinn undir hvað sem er og líkur á veirusmiti sama sem engar. Vel græjaður, innsiglaður og flottur. Gæti þó reynst minniháttar ókostur að grímunni undir Svarthöfðahjálminum fylgja sólgleraugu.

10/10


Kylo Ren

Þessi sver sig í ætt við afa sinn, Svarthöfða, og af góðri ástæðu. Gríman hjá Kylo léttari, en því miður færðu ekki jafnflotta rödd og gamla fyrirmyndin. 

9/10


Bane – The Dark Knight Rises 

Bane er í hörkugóðum málum, svo framarlega sem hann snertir ekki andlitið með berum höndum. Hann er tengdur við sérstakt lofthylki og ofar öllu er grímuhönnunin grjóthörð. Helsti ókostur mikillar notkunar er litamismunurinn á kollinum eftir heitan dag í sólinni. 

8/10


Svínstrýnið í Saw

Jú, þessi steinliggur og ætti að verja höfuð og háls vel. Auk þess er nóg pláss undir grísatrýninu til að bæta við loftsíu.

En svona í alvöru, er ekki í lagi?

8/10


Spider-Man

Undir hefðbundnum kringumstæðum myndi fólk segja að á meðan þú nærð að anda gegnum spandex-ið, þá getur þú vissulega hóstað gegnum það. Nýjustu Spider-Man grímurnar eru þó gæddar einhverri undratækni frá Járnmanninum, annarri hetju sem væri í jafn sterkum, ef ekki betri, málum í þessari samantekt.

7/10


Guy Fawkes – V for Vendetta

Þessi gríma er ekki alslæm og ef við tökum allan búninginn úr V for Vendetta eins og hann leggur sig er hér einn vel varinn maður. Það getur þó verið óþægilegt til lengdar að anda með þessa grímu á andlitinu og fer rakinn heldur betur að segja til sín. Þó myndi þessi gríma standast flestar kröfur, væri ekki fyrir litla loftgatið við munninn sem býður hættunni heim. 

5/10


Jason Vorhees – Friday the 13th o.fl.

Jason Vorhees er ekki nógu vel varinn. Götin á blóðugu hokkígrímunni eru of stór til að halda veirunni frá. En mikið óskaplega er hún flott samt.

4/10


Batman (í gegnum árin)

Þessi verndar þig fyrir um það bil öllu … nema því sem máli skiptir í veirufaraldri. Ben Affleck fann að vísu lausn á þessu í sinni bíómynd þegar hann hjólaði í Súpermann.

2/10


Gríman í The Mask

Þessi lýsir athyglissýki og stanslausri löngun til hreyfingar. Ekki mælt með því í einangrun.

1/10.

Fleiri grímur og lengri samantekt má finna hér.