Heldur Twilight-serían áfram?

Í haust verður tekin til sýninga kvikmyndin The Twilight Saga: Breaking Dawn – Part 2, sem byggir á seinni hluta síðustu bókarinnar í hinni vinsælu Twilight seríu. Eins og allir vita hefur serían malað gull síðan að fyrsta myndin sló í gegn haustið 2008, og nú fimm myndum seinna gerðum við ráð fyrir að þessu færi loksins að linna. Svo þarf ekki að vera. Fyrir stuttu var gengið frá kaupum Lionsgate á fyrirtækinu Summit Entertainment, sem hingað til hefur framleitt Twilight myndirnar. Jon Feltheimer framkvæmdastjóri Lionsgate tjáði sig um kaupin og sagðist ekki finnast að Breaking Dawn 2 þyrfti að vera endir seríunnar. Er hann var spurður hvort serían myndi halda áfram á einhvern hátt í samtali við LA times sagði hann:

„Við búumst við því að Breaking Dawn Part 2 taki inn yfir 700 milljónir dollara í miðasölunni um heim allan. Mér finnst erfitt að ímynda mér að kvikmynd sem græðir slíkar fjárhæðir hafi ekki frekara gildi. Twilight er ótrúleg sería og þeir hafa staðið sig ótrúlega vel við að halda henni við án nokkura affalla. Svo einfalda svarið er: ég vona það.“

Þá kemur náttúrulega upp spurningin: Hvernig ætla þeir a halda seríunni áfram? Fyrsti möguleikinn væri væntanlega að gera bara fleiri framhöld sem ekki byggðu á bókum Stephanie Meyers, nú eða „prequel“ sem gerðust á undan þeim. Þá hefur Meyer skrifað aðrar bækur sem gerast í Twilight heiminum en fjalla um aðrar persónur, og kannski væri hægt að nýta. Hinn valmöguleikinn væri svo náttúrulega að byrja bara seríuna upp á nýtt, (fyrst Spiderman er að því…) og gera allar myndirnar aftur. Þá er eftir augljósasti kosturinn, sem væri að flytja seríuna í sjónvarpsform. Spurður að því hvort það væri möguleiki sagði Feltheimer „Ég vona það svo sannarlega“.

Hvernig lýst lesendum á þetta?