Heimsendir Wrights færist nær

Lokakaflinn í Blood and Ice Cream þríleik Edgars Wright og Simon Pegg hefur legið í dvala seinustu fimm árin, eða alveg síðan að síðasta mynd þeirra, Hot Fuzz, kom út. Hægt og rólega þó hefur verkefnið vaknað til á árinu með einföldum Twitter-myndum frá höfundunum sem hafa hingað til náð að halda athyglinni uppi, en nú fyrst getum við virkilega sokkið tönnunum í þessa blessuðu kvikmynd. Eins og vitað er mun myndin bera heitið The World’s End, en nafnið hefur hingað til aðeins skapað umræður um heimsenda-ævintýri eða jafnvel Shaun of the Dead 2. Pegg hefur síðan áður sagt að þetta sé ekki tilgerðarleg tilraun til að kalla þrjár myndir þríleik, heldur mun World’s End binda skemmtilegan hnút á myndirnar og tengja þær saman.

Þrátt fyrir villandi titil þá mun World’s End ekki fjalla um heimsendi, eða að minnsta kosti ekki beint, heldur um fimm vini sem reyndu epískt drykkju-maraþon fyrir 20 árum. Eftir að einn þeirra fær óstjórnlega löngun til að klára maraþonið eftir öll þessi ár, sameinast þeir aftur til að halda af stað í gamla heimabæinn og á goðsagnarkennda pöbbinn The World’s End. Á meðan að á fortíðarþránni stendur uppgvöta vinirnir að ferðin reynist ekki vera aðeins fyrir bæði fortíð og framtíð þeirra, heldur einnig fyrir framtíð mannkynsins i heild sinni.

Þetta hljómar allt auðvitað mjög vel í höndum Pegg, Wright og Nick Frost og persónulega get ég ekki beðið eftir frekari uppfærslum á myndinni. Síðan ef allt gengur vel og Universal hreinlega gefur henni græna ljósið, sem hún hefur ekki fengið, þá er hún væntanleg um vorið 2013.