Hammer nefndur í hlutverk Lone Ranger

Armie Hammer, sem lék Winklevoss tvíburabræðurna í The Social Network, getur nú valið úr hlutverkum, eftir góðan leik í The Social Network. Empire kvikmyndaritið segir frá því, og vitnar í frétt LA Times, að Hammer komi til með að leika The Lone Ranger, en undirbúningur þeirrar myndar stendur nú sem hæst.
Eins og við sögðum frá í apríl þá stóð til að Ryan Gosling setti upp svörtu grímuna og hvíta hattinn, en nú er það sem sagt Hammer sem verið er að ræða við. Johnny Depp mun eftir sem áður leika aðstoðarmann The Lone Ranger, Tonto.

Framleiðendur myndarinnar eru Disney og Jerry Bruckheimer, en það hefur lengi staðið til að gera mynd um hetjuna. Nú er hinsvegar nokkuð ljóst að af þessu verði, en Gore Verbinski hefur samþykkt að leikstýra og Depp að leika.

Hammer mun leika í mynd Clint Eastwood J Edgar, og leika prinsinn í væntanlegri mynd eftir sögunni um Mjallhvíti.