Guillermo del Toro hefur staðfest að hann sé að undirbúa Dark Universe sem verður byggð á myndasögum DC Comics.
Myndin gekk áður undir nafninu Heaven Sent. „Ég er að vinna að henni,“ sagði del Toro í viðtali við IGN. „Ég er að skrifa beinagrindina að sögunni og við erum búin að ræða við handritshöfund. Mjög, mjög góðan höfund. Fólk á eftir að vera ánægt með hann. Hann er búinn að samþykkja að taka þátt. Hann er hárrétti maðurinn í verkefnið og vonandi verður myndin að veruleika.“
Meðal persóna í þessari Warner Bros-mynd verða Swamp Thing, The Demon, John Constantine, Deadman, The Spectre, Zatara og Zatanna. Del Toro sagðist ekki geta valið uppáhaldspersónuna sína: „Þú ert að tala um öll mín æskuár.“
Ekki er langt síðan del Toro var boðið að leikstýra Star Wars: Episode 7 en hann hafnaði því. Á ferilsskrá hans eru myndir á borð við Pan´s Labyrinth og Hellboy.