Mel Gibson og John Lithgow eru með tilboð á borðinu um að leika í framhaldsmynd gamanmyndarinnar vinsælu Daddy´s Home, Daddy’s Home 2. Gibson myndi leika föður persónu Mark Wahlberg, en Lithgow yrði faðir persónu Will Ferrell.
Söguþráður myndarinnar snýst um þessa tvo afa, sem koma í heimsókn yfir jólin, og hafa sínar hugmyndir um það hvernig best sé að ala upp börn.
Vegna gríðarlegra vinsælda Star Wars: The Force Awakens í desember 2015, þá áttuðu margir sig ekki á því að önnur mynd fékk einnig mikla aðsókn um sama leyti, en það var einmitt Daddy´s Home, en myndin þénaði 200 milljónir bandaríkjadala í bíó og hefur eftir það þénað talsvert meira á DVD og VOD í kjölfarið.
Vegna velgengninnar var umsvifalaust hafist handa við að skrifa framhaldsmynd með þeim Wahlberg og Ferrell í aðalhlutverkum sem fyrr.
Samkvæmt Deadline hafa hvorki Gibson né Lithgow skrifað undir samning um að leika í myndinni enn sem komið er, en leikstjórinn Sean Anders mun leikstýra á nýjan leik, auk þess að skrifa handrit ásamt John Morris.
Tökur eru áætlaðar síðar á árinu, og frumsýningardagur hefur verið ákveðinn þann 10. nóvember nk. í Bandaríkjunum og hér á Íslandi.
Gibson og Lithgow eru báðir funheitir þessa dagana. Mynd Gibson, Hacksaw Ridge, er tilnefnd til sex Óskarsverðlauna, þar á meðal sem besta mynd og fyrir bestu leikstjórn, og Lithgow vann á dögunum SAG verðlaunin fyrir hina rómuðu Netflix þætti The Crown.