Gibson kærir Glæpahneigð

Thomas Gibson, sem var endanlega rekinn úr Glæpahneigð ( Criminal Minds ) sjónvarpsþáttunum vinsælu á föstudag, eftir tímabundinn brottrekstur fyrr í vikunni, hefur ráðið stórt lögfræðifyrirtæki í Los Angeles til að undirbúa kæru á hendur framleiðendum þáttanna.

thomas gibson

Gibson, 54 ára, sem bæði lék í þáttunum og var að leikstýra einum þætti þegar hann var látinn fara, var rekinn fyrir að sparka í fót handritshöfundar og framleiðanda þáttanna, Virgil Williams, á tökustað eftir rifrildi.

Heimildarmaður The Hollywood Reporter segir að um sjálfsvörn hafi verið að ræða , enda sé Virgil þjálfaður í hnefaleikum.  Aðrir segja að Virgil sé hæglætismaður. Mörg vitni voru að atvikinu.

Gibson hefur leikið í þáttunum í 12 ár og er því íslenskum sjónvarpsþáhorfendum að góðu kunnur. Upphaflega var honum vísað frá næstu tvo þætti, og annar leikstjóri fenginn í hans stað, en degi seinna var hann rekinn endanlega.

Gibson, sem er sagður hafa þénað um 5 milljónir Bandaríkjadala fyrir síðustu þáttaröð, sendi frá sér yfirlýsingu á föstudag þar sem hann sagðist unna þáttunum, en neitaði að biðjast afsökunar: „Ég hafði vonast til að þetta gengi yfir, en það er ekki hægt núna. Ég vildi bara þakka handritshöfundum, framleiðendum, leikurum, og tökuliði, og síðast en ekki síst aðdáendum þáttanna.“

Óvíst er um framhaldið. Árið 2011 krafðist Charlie Sheen 100 milljóna dala frá Warner Bros. Television og handritshöfundi og framleiðanda þáttanna Chuck Lorre, þegar hann var rekinn úr hinum vinsælu gamanþáttum Two and a Half Men, eftir undarlega hegðun.

Í kæru sinni sagðist hann til dæmis hafa „þurft að þola tap á atvinnutækifærum“ og fleira. Málinu lauk með samningi, en ólíkt máli Gibson þá var engin líkamsárás þar á ferðinni.

Nicollette Sheridan kærði einnig ABC Studios árið 2012 fyrir líkamlega áreitni Marc Cherry, stjórnenda þáttanna. Það mál er enn í gangi.

Gibson, sem fyrst sló í gegn í sjónvarpi í þáttunum Dharma and Greg, hefur áður lent í atvikum á tökustað.  Árið 2010 var honum skipað að fara á reiðistjórnunarnámskeið eftir átök við aðstoðarleikstjórann Ian Woolf. Þá er hann sagður hafa iðulega lent í vandræðum fyrir að móðga fólk og skamma, enda sé hann fljótur að reiðast.  Gibson var kærður árið 2013 fyrir gáleysislegan akstur, eftir að hann var handtekinn grunaður um að aka undir áhrifum.