Fyrir nokkrum dögum síðan greindum við hér á Kvikmyndir.is frá því að leikarinn Jason Clarke hefði samþykkt að leika í næstu Planet of the Apes kvikmyndinni sem ber heitið Dawn of the Planet of the Apes. Nú þykir ljóst að annar stórleikari sé búinn að samþykkja að sameinast Jason Clarke og félögum en það er enginn annar en Gary Oldman, sem í seinni tíð er einna þekktastur fyrir leik sinn í The Dark Knight þríleiknum sem commissioner Gordon. Hvað varðar hlutverk hans í Dawn of the Planet of the Apes þá kemur hann til með að leika mann að nafni Dreyfus, sem leiðir her uppreisnarmanna sem berst gegn apakynstofninum.
Myndin mun líta dagsins ljós þann 23. maí 2014 en hennar er beðið með mikilli eftirvæntingu eftir miklar vinsældir Rise of the Planet of the Apes. Aftur á móti þurfa aðdáendur Gary Oldman ekki að bíða svo lengi eftir að sjá hetjuna á hvíta tjaldinu því hann mun einnig leika stórt hlutverk í endurgerð á gömlu góðu Robocop myndinni en hún mun koma út í febrúar 2014.

