Game of Thrones börn í Bretlandi

Danerys, Sansa, Theon og Tyrion eru meðal þeirra nafna sem ungabörn á Englandi hafa verið að fá síðustu misserin, en eins og glöggir lesendur ættu að kannast við þá eru nöfnin ættuð úr bókunum og sjónvarpsþáttseríunni Game of Thrones.

theon

Í grein á The Independent er sagt að mikil aukning hafi orðið á nafngiftum sem tengjast Game of Thrones frá árinu 2011.

daenerys

Í fyrra, 2014, fengu 18 börn nafnið Theon, 17 Tyrion, 14 Bran og fjögur Sandor. Þá hefur  Daenerys, öðru nafni Khaleesi, notið vinsælda fyrir stúlkubörn. 53 börn hafa fengið nafnið Khaleesi, níu stúlkur hafa verið skírðar Daenerys, sex fengu nafnið Sansa og fjórar voru skírðar Brienne.

Hér á Íslandi hafa vinsælar bækur oft hrint af stað tísku hvað nafngiftir varðar og er þar skemmst að minnast bókanna um Ísfólkið, en nokkuð var um það þegar þær bækur voru hvað vinsælastar að börn voru skírð í höfuðið á persónum úr heimi Ísfólksins. Engum sögum fer hinsvegar enn af íslenskum börnum sem heita í höfuðið á Game of Thrones persónum.

Það er breska tölfræðiskrifstofan,  Office for National Statistics (ONS), sem tekur þessar upplýsingar saman í Bretlandi, en í grein Independent kemur jafnframt fram að vinsælt hafi verið að skíra börn nöfnum sem ættuð eru úr myndinni Frozen upp á síðkastið, nöfnum eins og Anna, Elsa, Olaf og Kristoff.