Íslandstenging kom til skjalanna

Skoski leikarinn Iain Glen hlýtur, að öllum öðrum ólöstuðum, að mega teljast frægasti leikarinn í spennumyndinni Napóleonsskjölin og talsverður happafengur fyrir leikstjórann Óskar Þór Axelsson.

Ian Glen sem Ser Jorah Mormont í Game of Thrones.

Flestir hér á landi þekkja Glen líklega fyrst og fremst sem hinn landlausa riddara Ser Jorah Mormont, einn f lottasta töffarann í The Game of Thrones. Þá er hann í einu aðalhlutverkanna í The Rig, spennuþáttum með hryllingsívafi, sem eru nýbyrjaðir á Amazon Prime og gerast á skoskum olíuborpalli úti á reginhafi.

Hefur verið lengi að

Glen hefur verið lengi að og í upphafi ferils síns skaut hann til dæmis upp kollinum í þremur Taggartþáttum 1986, sakamálaþáttunum Trial & Retribution 1997 og Sigourney Weaver-myndinni Gorillas in the Mist 1988.

Glen í Napóleonsskjölunum.

Hann gerði síðan hinum drykkfelda og víðsjárverða írska einkaspæjara Jack Tayolor frábær skil í samnefndum þáttum sem hófu göngu sína 2010 og í þeim liggur einmitt sú sterka Íslandstenging sem réði miklu um að Glen ákvað að slá til og leika bandaríska útsendarann William Carr í Napóleonsskjölunum.

Marteinn Þórisson, sem skrifaði handrit Napóleonsskjalanna upp úr samnefndri skáldsögu Arnaldar Indriðasonar, var einnig handritshöfundur nokkurra Jack Taylor-þátta og vann þar upp úr skáldsögum Ken Bruen um lögreglumanninn fyrrverandi sem tefldi ítrekað á tæpasta vað í undirheimum Galway á Írlandi.

Önnur tenging

Þá er einn framleiðenda bæði Napóleonsskjalanna og Jack Taylor-þáttanna, Ralph Christians, með sterkar tengingar við Ísland. Hann er eiginmaður Sigríður Halldórsdóttur og þau gerðu einmitt heimildarmyndina Undir mögnuðu tungli 1993 í tilefni þess að 20 ár voru liðin frá eldgosinu í Heimaey.

Óskar Þór, leikstjóri Napóleonsskjalanna, segir fyrri kynni Glens af þeim Christian og Marteini hafa vegið þungt og vakið slíkan áhuga hjá Glen á verkefninu að mun auðveldara hafi reynst að landa þessum skoska stórlaxi en ætla hefði mátt í fyrstu.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu. Millifyrirsagnir eru frá kvikmyndir.is