Úr GOT í Marvel heima

Game Of Thrones stjarnan Kit Harington er að ganga til liðs við Marvel ofurhetjuheiminn ( e. Marvel Cinematic Universe), en ekki hefur verið opinberað hvaða persónu hann mun leika.

Í gervi Jon Snow í Game of Thrones.

Samkvæmt heimildum Deadline vefjarins þá mun Kit verða með í mynd sem er í undirbúningi, en engar upplýsingar er að hafa ennþá um það um hvaða kvikmynd er að ræða.

Fréttirnar koma í kjölfar þess að sagt var frá því að Spider-Man væri nú ekki lengur hluti af Marvel ofurhetjuheiminum, eftir að viðræður milli Disney og Sony runnu út í sandinn.

Frekari upplýsingar um þátt Kit í Marvel heimum eru taldar eiga eftir að birtast fljótlega, samkvæmt sömu heimildum, en aðdáendur bæði Harington og Marvel, eru óþreyjufullir að vita meira um málið.

Ráðningin kemur á góðum tíma fyrir Harington, þar sem nýbúið er að sýna síðustu þáttaröð Game of Thrones, en þar fór leikarinn með hlutverk Jon Snow.

GOT endaði vel

Kit tjáði sig um endalok Game of Thrones í viðtali við Entertainment Weekly, en þeir sem vijla ekki vita meira skulu hætta að lesa núna: „Að sjá hann fara hinum megin við Vegginn, til einhvers sem var raunverulegt og satt, og heiðarlegt, til fólksins sem allir höfðu sagt honum að hann tilheyrði, hinum frjálsu, þá leið mér eins og hann væri loksins frjáls. Það var góður endir.“