Gagnrýnendur tæta After Earth í sig

Nýjasta mynd Will Smith, After Earth, virðist ekki ætla að ná flugi í miðasölunni í Bandarískum bíóhúsum, en myndin var frumsýnd nú um helgina þar í landi.

Gagnrýnendur hafa auk þess tætt myndina í sig, en margir segja að söguþráður myndarinnar sé innblásinn af kenningum Vísindakirkjunnar.

after earth

Myndinni er leikstýrt af M. Night Shyamalan og framleidd af Jada Pinkett Smith, eiginkonu Will Smith sem leikur aðalhlutverkið ásamt syni þeirra, Jaden, 14 ára.

Myndir Smith fjölskyldunnar hafa yfirleitt gengið vel í miðasölunni, en After Earth virðist ætla að verða undantekning á því, en myndin þénaði 9-10 milljónir Bandaríkjadala á frumsýningardeginum í gær, föstudag.

Kvikmyndasíðan Deadline áætlar að miðað við þetta þá muni heildartekjur myndarinnar yfir helgina verða um 25 milljónir dala, sem er verulega mikið lægra en framleiðendur myndarinnar stefndu að, sem var 38 milljónir dala. Myndin kostaði 135 milljónir dala í framleiðslu.

Tekjur upp á 25 milljónir dala þýða að myndin væri að fá helmingi minni aðsókn en Men In Black 3 á síðasta ári og einnig verulega mikið minni tekjur en síðustu myndir Will Smith hafa þénað á frumsýningarhelgi sinni, Hancock, sem þénaði 62,6 milljónir dala árið 2008 og I Am Legend, sem þénaði 77,2 milljónir dala árið 2007. Árið 2010 þénði The Karate Kid með Jaden Smith 55,6 milljónir dala á frumsýningarhelginni.

Eina verstu útreiðina fær myndin hjá gagnrýnanda Rolling Stone, Peter Travers, sem skrifaði m.a. „After Earth verðskuldar samlíkingu við hina skelfilegu Battlefield Earth frá árinu 2000 með John Travolta, sem var óður til vísindaskáldsögu eftir upphafsmann Vísindakirkjunnar, L. Ron Hubbard. Já, hún er svona slæm.“

Hann heldur áfram að lýsa henni sem margþvældri tuggu og flatneskju sem láti 90 mínúturnar í bíó  líða eins og lífstíðardómur.

Smith fjölskyldan var spurð út í trúmál sín í kynningarherferðinni fyrir myndina, og þá sagði Will við Vulture að þau væru ekki trúfólk, þau væru einfaldalega „nemendur í heimstrú“ ( students of world religion ), hvað sem það þá þýðir.