Fyrsta mynd í leikstjórn Crowe

water_diviner_ver6The Water Diviner er fyrsta bíómynd Russells Crowe sem leikstjóra. Myndin hlaut Áströlsku kvikmyndaverðlaunin í ár sem besta mynd ársins 2014 og þykir strax afar líkleg til að keppa um Óskarsverðlaunin að ári en hún verður frumsýnd í Bandaríkjunum 24. apríl.

Hér á landi verður hún hins vegar frumsýnd 30. apríl og vonandi lætur enginn kvikmyndaunnandi hana fram hjá sér fara.

The Water Diviner sækir innblásturinn í sanna sögu, segir frá bændahjónum í Ástralíu sem fá þær hörmulegu fréttir að þrír synir þeirra hafi allir fallið í orrustunni um Gallipoliskagann í Tyrklandi í fyrri heimsstyrjöldinni.

Yfirkomin af sorg fremur móðir þeirra síðan sjálfsmorð í nálægri tjörn. Hafandi misst allt ákveður bóndinn, Connor, að fara til Tyrklands og finna lík sona sinna svo þeir megi hvíla við hlið móður sinnar. En þetta er um leið hættuför því styrjöldinni er ekki lokið og Connor má hafa sig allan við ef hann ætlar sjálfur að komast lifandi frá hinu erfiða verkefni sínu. En uppgjöf var aldrei valkostur fyrir hann, síst af öllu núna.